137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir þetta stóra mál og nefndi ýmsa galla á því. Ég held að í stuttu máli getum við lýst því þannig að — ég ætla ekki að fara í aðdragandann eða Icesave-samninginn en frá því að við hófum að fjalla um þetta núna í sumar held ég að óhætt sé að segja að vinnubrögðin hafi einkennst af því að stjórnarandstaðan hefur þurft að toga nokkurn veginn hvert einasta skjal og hvert einasta mál út úr ríkisstjórninni.

Við sjáum það líka, og það er einlæg skoðun mín því meira sem ég skoða þetta mál, að þetta mál var keyrt í gegn til þess að afgreiða dekurmál og eina mál Samfylkingarinnar, aðild að Evrópusambandinu. Öllu var fórnað til þess að svo mætti verða. Þegar svona efnahagshrun verður eins og hér varð, þó að það sé ekki bundið við Ísland, finnst mér sjálfsagt að hugsa: Hvað gat maður gert betur í þeirri stöðu sem maður var sem þingmaður og takandi þátt í pólitík? Ég held að það sé alveg sama hvernig á þetta er litið, þetta mál er af hálfu ríkisstjórnarinnar, bæði hvernig það var höndlað í þinginu, aðdragandanum og varðandi samningana, í besta falli algjört klúður, svo maður noti nú ekki stór orð.

Framsóknarflokkurinn setti þessa ríkisstjórn af stað 1. febrúar. Ég vildi því spyrja hv. þingmann hvernig henni liði með það og sömuleiðis: Voru ekki settir neinir fyrirvarar við stuðning Framsóknarflokksins við ríkisstjórnina hvað þetta stóra mál varðaði á sínum (Forseti hringir.) tíma?