137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er ágætt að það komi fram hvernig að þessu var staðið, hinu svokallaða samstarfi sem var í raun og veru ekki samstarf heldur einstefna. Eins og hv. þingmaður e.t.v. veit lagði Framsóknarflokkurinn fram mjög metnaðarfullar efnahagstillögur í febrúar sem áttu að vera ákveðið innspil í þessa ríkisstjórn og eins og hv. þingmaður veit eru þær ekki enn þá komnar til framkvæmda af því að ríkisstjórninni hentaði ekki að hlusta á Framsóknarflokkinn.

Ég var ekki orðin þingmaður þá en formaður Framsóknarflokksins hefur sagt mér að þegar þetta kom upp á, þessi hugmynd um að Framsóknarflokkurinn mundi verja ríkisstjórnina falli til að hér mundi ekki ríkja mikil óöld í stjórnmálalífi, hafi hræðsluáróðurinn byrjað samstundis. Mér skilst að það hafi verið búið að boða til blaðamannafundar áður en búið var að samþykkja þetta samkomulag, svo mikill var asinn.

Framsóknarflokkurinn sér ekki eftir því að hafa stutt þessa ríkisstjórn eða varið hana falli en hann sér heldur ekki eftir að hafa ekki þegið ráðherrasæti í þessari ríkisstjórn, því að stemningin á þessum tíma var að hafa hér vinstri stjórn. Það voru erfiðar aðstæður. Framsóknarflokkurinn kom að þessu en miðað við hve lítið var hlustað á Framsóknarflokkinn á þessum tíma og miðað við á hvaða leið þessir stjórnmálaflokkar voru var svo sem ekki mikils að vænta. Framsóknarflokkurinn fékk þó sitt í gegn, þ.e. að kosningunum var flýtt. Ég held að það hafi verið hin mesta gæfa fyrir íslensku þjóðina að fá að kjósa þrátt fyrir að sú ríkisstjórn (Forseti hringir.) sem kom út úr kosningunum hafi ekki verið að mínu skapi.