137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir varðstöðu hennar því að við erum að gera hér mjög flókinn samning sem byggir á breskum lögum sem flestir þingmenn þekkja ekki. Það sem við höfum í hendi okkar er ríkisábyrgðin sjálf og hún er ákveðin hérna með lögum frá Alþingi og hún gildir gagnvart íslenskum ríkiskassa. Íslenskur ríkiskassi greiðir ekki meira út en Alþingi ákveður með lögum. Það gildir.

Ég tek undir það með hv. þingmanni, þetta er að sjálfsögðu nauðungarsamningur sem við höfum gert og það er búið að beita okkur miklum þrýstingi. Það væri mjög áhugavert ef við hv. þingmaður mundum reyna að finna út úr því hvernig við gætum upplýst alþjóð um þá nauðung, t.d. á gjaldeyrismarkaði fyrstu 2–3 mánuðina eftir fall. Það væri mjög áhugavert, sérstaklega fyrir erlend ríki að heyra það. Ég hef sagt það við erlenda þingmenn og þeir bara segja mér að það geti ekki verið, ég sé að segja sögur.