137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:25]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er ekki ofsagt að þau mál sem þessi ríkisstjórn hefur haft á sínu borði eru bæði stór og umdeild, bæði innan þings og utan. En þingmenn eru kjörnir til að leysa mál og finna þeim farveg og það er einmitt það sem við erum að gera, nú þegar við fjöllum um ríkisábyrgð vegna hins svokallaða Icesave-máls. Eins og fram hefur komið í umræðunni er um að ræða lánasamninga milli Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og íslenska ríkisins annars vegar og Hollands og Bretlands hins vegar sem voru undirritaðir þann 5. júní sl. Samninganefndin hafði í farteskinu ályktun Alþingis frá 5. desember sl. og byggði umboð sitt til viðræðna á henni en þar var ríkisstjórninni falið að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu. Grundvöllurinn voru hin sameiginlegu viðmið sem aðilar höfðu komið sér saman um og samkomulag náðist um í Brussel um miðjan nóvember, en þar kemur fram að Ísland muni ábyrgjast lágmarkstryggingu innstæðueigenda í útibúum bankanna erlendis og að í viðræðum um fjárhagsaðstoð skuli tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í. Þetta voru þær gagnkvæmu forsendur sem allir samningsaðilar byggðu á í viðræðum um lausn málsins.

Töluverð gagnrýni hefur verið á samninganefndina og því haldið fram að samningurinn sem hún kom með heim sé ekki góður. Því er ég ekki sammála og tel ég að samninganefndin hafi unnið gott starf í afar erfiðum aðstæðum. (SDG: En af hverju fyrirvara?) Í svona gríðarlega stóru máli er auðvelt að gagnrýna, en það er oft auðveldara um að tala en í að komast. Svo má líka velta fyrir sér hvort hægt sé að tala um eitthvað gott yfir höfuð í slíkum aðstæðum sem uppi eru hjá þjóð sem stóð frammi fyrir þeim ósköpum er yfir dundu í haust.

Frágangur þessarar ríkisábyrgðar er nauðsynlegur til að við getum hafið endurreisn íslensks efnahagslífs og atvinnulífs. Icesave-samningurinn er þjóðinni vissulega erfiður og lærdómurinn sem af honum má draga er sá að eigendur bankanna hirða hagnaðinn en við skattborgararnir tapið. Hlutverk stjórnmálamanna er að tryggja að ekkert slíkt geti komið fyrir aftur og tryggja eftirlit hlutlausra stofnana fyrir hönd almennings.

Frú forseti. Fjárlaganefnd hefur borið hitann og þungann af vinnunni við frumvarpið en ákveðnum hlutum þess var vísað til efnahags- og skattanefndar og utanríkismálanefndar til umsagnar. Vil ég hér nota tækifærið og þakka formanni og sitjandi varaformanni fjárlaganefndar fyrir framúrskarandi gott starf. Eins og hér kom fram í dag hjá Þór Saari var unnið þrekvirki af hálfu þeirra og verð ég að taka undir það. Ég vil einnig þakka félögum mínum í nefndinni sem lögðust á eitt um að ná breiðri samstöðu og sátt í málinu og voru margir sem komu að því í lokin, þ.e. áður en það kom inn í þingið aftur. Þar sem málið er mjög viðamikið hvíldi einnig afar mikil vinna á riturum nefndarinnar sem ber að þakka sérstaklega.

Það er ekki neinum vafa undirorpið að málið er viðamikið og ógrynni af álitum og gögnum kom fyrir nefndirnar. Málið er flókið og umræðan úti í samfélaginu hefur á tíðum endurspeglað það, auk þess litast hún af réttlátri reiði gagnvart þeim sem komu okkur í þessa stöðu. Það má ekki gleymast að stjórnvöld ítrekuðu nokkrum sinnum í aðdraganda bankahrunsins að þau mundu standa við skuldbindingar sínar samkvæmt tilskipun 94/19/EB og að þau mundu styðja við tryggingarsjóðinn ef þörf krefði. Viðsemjendur höfnuðu þessari afstöðu eða lagatúlkun, öll ESB-ríkin höfnuðu henni og Noregur líka.

Auk þess reyndu stjórnvöld allar leiðir til að komast undan því að skuldbindingarnar lentu á okkur, íslenskum skattborgurum, og var því haldið fram af Íslands hálfu að skuldbindingin ætti eingöngu við um lágmarkstryggingu ef ekki væri um kerfishrun að ræða eins og varð á Íslandi. Dómstólaleiðin var reynd, en það er að öllu jöfnu óumdeild meginregla þjóðaréttar að allir málsaðilar verða að samþykkja að leggja málið í dóm. Þessu höfnuðu viðsemjendur okkar.

Allar leiðir nema sú sem var farin reyndust því miður ófærar og hin pólitíska niðurstaða er því þessi samningur sem við fjöllum hér um ríkisábyrgð á. Hér eins og annars staðar réðu hagsmunir almennings því að ríkisvaldið tók á sig ábyrgð, jafnvel umfram lagalega skyldu, til að verja jafnnauðsynlega þætti samfélagsins og fjármálastofnanir eru. Hin siðferðilega nálgun snýr að hinu nýja Íslandi sem margir vilja reisa eftir hrun. Á græðgisvæðingin, sem kippti úr sambandi grunngildum samfélagsins hjá hluta þjóðarinnar, að víkja fyrir orðheldni og trausti í samskiptum manna, hvort heldur er í viðskiptum eða öðrum daglegum verkum? Nægja lögin ein og sér eða er það svo að óskráð gildi á borð við mannasiði verða að fylgja með? Nú er komið að því að taka ákvörðun og sýna það og sanna að við erum þjóð sem stendur við skuldbindingar sínar.

Frú forseti. Eitt af því mikilvæga í breytingartillögunum er að tekið skal tillit til ,,hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt“. Annað afar mikilvægt atriði er hinn sjö ára greiðslufrestur sem náðist milli samninganefndanna, en á þessum árum er gert ráð fyrir því að eignir Landsbanka Íslands gangi upp í höfuðstól lánanna og er gert ráð fyrir að þær standi undir u.þ.b. 75% af kröfunum. Því skal haldið til haga að Seðlabanki Íslands, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og fjármálaráðuneytið komust að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið geti staðið undir greiðslum reyni á ábyrgðina.

Það er ljóst að óvissa felst í sumum af forsendum samningsins en í því má minna á að fæstir geta líklega spáð fyrir um nokkurn skapaðan hlut eftir sjö ár. Ég tel að með þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir séum við að tryggja okkur enn frekar fyrir þessari óvissu sem illa verður í ráðið.

Þessi tími ætti auk þess að vera nægjanlegur til að leysa úr málinu fyrir Evrópudómstólnum og ákveða rétta tilhögun á málum þegar innlánstryggingarkerfi í heimalandi hefur ekki yfir nægjanlegu fjármagni að ráða til að greiða út allar innlánskröfur. En stjórnvöld verða líka að nýta þennan tíma til að gera allt til þess að íslensk þjóð þurfi ekki að greiða það sem upp á vantar þegar eignir þrotabús Landsbankans hafa verið innheimtar. Í 8. gr. breytingartillagnanna er ríkisstjórninni gert að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana sem þarf til að endurheimta það fé sem safnaðist inn á Icesave-reikningana og fær frest til 15. september til að leita samstarfs við Breta, Hollendinga og Evrópusambandið til að rekja hvert innstæðurnar af Icesave-reikningunum voru fluttar. Það tel ég mjög mikilvægt. Að hafna samningnum býður upp á mikla óvissu í efnahagslífinu og engan veginn er hægt að ætla að betri kjör verði í boði. Undir liggja m.a. lánasamningar við Norðurlönd og endurskoðun hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem við þurfum til að hefja hér uppbyggingu á norrænu velferðarsamfélagi. Við stöndum nefnilega frammi fyrir því að skortur er á trausti í alþjóðasamfélaginu sem hefur komið fram í ýmsum myndum, t.d. þegar Norræni fjárfestingarbankinn hætti að lána íslenskum fyrirtækjum.

Við þurfum að vinna hratt að því að létta á gjaldeyrishöftum og auka flæði fjármagns til fyrirtækja, en liður í því er að ganga frá þessari ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna. Undir þetta hafa forsvarsmenn atvinnulífsins og verkalýðsforustunnar tekið og segja að uppbyggingin fram undan sé því háð. Ekki má heldur líta fram hjá því að hluti af Icesave-innstæðunum fór í neyslu og fjárfestingu á Íslandi á undanförnum árum.

Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um siðferðileg álitaefni stendur, með leyfi forseta:

„Ísland er sjálfstæð þjóð sem verður að taka ábyrgð á gerðum sínum.“

Það er viðurkennt að íslensk stjórnvöld og eftirlitsstofnanir bera jafnt með ýmsum aðgerðum og aðgerðaleysi ákveðna ábyrgð á því efnahagshruni sem hér varð og eru málefni Icesave-reikninga Landsbanka Íslands hf. þar ekki undanskilin.

„Íslendingar bera sjálfir ábyrgð á því að leysa úr þeim vanda sem við er að glíma. Íslendingar þurfa að endurnýja traust annarra ríkja á landinu og koma aftur á eðlilegum viðskiptum við aðrar þjóðir. Samþykkt ríkisábyrgðar þeirrar sem hér um ræðir er að mati meiri hlutans ein af forsendum þess að slíkt takist. “

Við teljum að með þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir séum við að styrkja ákveðna þætti samningsins, bæði hvað varðar lagalegu og efnahagslegu hliðina, og staðfestum um leið að við komum fram á sanngjarnan hátt við erlenda sparifjáreigendur og ætlum að standa við skuldbindingar okkar.

Frú forseti. Ég tel að engum stjórnmálamanni þyki ljúft að þurfa að afgreiða þennan Icesave-samning, og allra síst okkur í Vinstri grænum og þeim sem mestan þungann ber í málinu, hæstv. fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni. Það breytir því þó ekki að málið þarf að leiða til lykta, þótt bæði vont og umdeilt sé, og það tel ég ekki eftir mér að gera og hvet alla þingmenn til að taka þátt í því í sameiningu að afgreiða málið enda varðar það framtíð allra Íslendinga.