137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir vel flutta ræðu. Ég vil spyrja þriggja spurninga.

Í fyrsta lagi talaði hv. þingmaður um að þetta væri góður samningur. Fyrsta spurningin er hvort einhver ástæða sé til að breyta honum eins og við erum að gera.

Í annan stað talaði hv. þingmaður um, og ég er sammála honum um það, að við eigum ekki að vera með kerfi þar sem eigendur græða en skattgreiðendur tapa og ég vil koma í veg fyrir það. Ég spyr hvort hv. þingmaður sjái einhverja aðra leið en að ganga úr EES-samningnum til að ná því fram.

Í þriðja lagi vil ég spyrja hv. þingmann, af því að hún segir að lánasamningar við Norðurlöndin hangi á þessu máli. Nú hefur komið fram að Pólverjar og Færeyingar setji engin slík skilyrði, og af því að við erum að tala um siðferðileg málefni, finnst hv. þingmanni það rétt af þessum nágrönnum okkar og vinaþjóðum að taka afstöðu með Bretum, Hollendingum og Evrópusambandinu (Forseti hringir.) í þessu mikla deilumáli?