137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýr svör og mættu stjórnarliðar taka hv. þingmann sér til fyrirmyndar, ég tala nú ekki um þann sem situr við endann og er hæstv. fjármálaráðherra.

Málið er einfalt, virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að við erum í þessu máli er að við erum á Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta hefur ekkert með einkavæðingu banka að gera eða neitt slíkt, þetta er bara vegna þess að við erum á Evrópska efnahagssvæðinu. Ég veit ekki hvaða leiðir menn hafa til að komast frá þessari innstæðutryggingartilskipun, kannski veit hv. þingmaður það.

Svar hv. þingmanns um að ekki sé verið að breyta samningnum og þetta sé í rauninni eiginlega engin breyting — það mun hafa áhrif á afstöðu mína í málinu þegar maður heyrir hvernig stjórnarliðar tala hér. Það er ekki annað hægt og það eru mér mikil vonbrigði. Að telja það siðlegt að taka afstöðu þegar verið er að beita okkur valdi, (Forseti hringir.) frændþjóðir okkar eru að gera það, veldur mér mjög miklum vonbrigðum og að hér sé fólk á Alþingi Íslendinga sem finnst það rétt og eðlilegt. (Forseti hringir.) Ég vona að við munum aldrei koma svona fram við þær þjóðir sem eru minni og fámennari en við.