137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:46]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir ágæta ræðu. Ég hjó eftir einu sem ég fæ ekki alveg til að ganga upp. Hv. þingmaður segir í ræðu sinni að samningarnir séu góðir og bætir síðan við að fyrirvararnir séu til að styrkja samninginn.

Nú er það svo að samningurinn og fyrirvararnir eða ríkisábyrgðin eru tveir aðskildir gjörningar, annað er ríkisábyrgð sem löggjafinn samþykkir og hitt er einkasamningur við tryggingarsjóðinn. Virtir lögfræðingar, Ragnar Hall og Stefán Már prófessor hafa talað um að það beri að taka samninginn upp í kjölfarið vegna þess að forsendur hans bresti með þessum breytingum á fyrirvaranum. Ég fæ það því ekki alveg (Forseti hringir.) til að ganga upp hvernig þingmaðurinn kemst að þeirri niðurstöðu að samningarnir séu góðir og fyrirvararnir styrki þá.