137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:48]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir þessa hugleiðingu. Við vitum öll sem hér sitjum og stöndum að samningurinn og ríkisábyrgðin hanga saman. Góðan samning má eflaust gera enn betri, ekki satt? Þrátt fyrir að þetta sé ríkisábyrgð er hún til þess fallin að styrkja þau ákvæði sem í samningnum eru þar sem ábyrgðin tekur ekki gildi nema við samþykkjum hana og samningurinn ekki heldur. Af því að hv. þingmaður nefndi lögfræðinga þá vitum við líka að fimm lögfræðingateymi aðstoðuðu okkur á síðustu metrunum og þeir eru ekki á sömu skoðun og þeir lögmenn sem hér voru nefndir. Þeir telja að þessi samningur sé ekki (Forseti hringir.) fallinn úr gildi þrátt fyrir að þessir fyrirvarar séu settir og ég tek þá ákvörðun að trúa þeim.