137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:02]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að því fagna þeirri þverpólitísku sátt sem náðist í fjárlaganefnd um fyrirvara við Icesave-samningana, sátt sem hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson lagði mikið á sig til ná og á hann miklar þakkir skildar fyrir framlag sitt til lausnar á þessu erfiða máli.

Það eru mikil vonbrigði að fulltrúi Framsóknarflokksins skuli ekki hafa stutt breytingartillögur fjárlaganefndar. Ég vonast enn til að takast muni að fá þingflokk Framsóknarflokks til að flykkja sér á bak við breytingartillögur fjárlaganefndar þegar kemur að 3. umræðu.

Frá upphafi hef ég ásamt félögum mínum í þingflokki VG, hæstv. ráðherra Ögmundi Jónassyni og hv. þingflokksformanni Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, verið á móti Icesave-samningum. Þessi andstaða okkar kom skýrt fram á fundi þingflokks VG fyrir rúmum tveimur mánuðum þegar við höfnuðum beiðni hæstv. fjármálaráðherra um umboð til að klára Icesave-lánasamningana. Ástæðurnar sem ég gaf þá fyrir andstöðu minni eru þríþættar:

Í fyrsta lagi var það mat mitt að ekki væri tímabært að ganga frá samningum um Icesave-skuldbindingarnar þar sem of stuttur tími væri liðinn frá sjálfu bankahruninu og því allar líkur á að skuldir þjóðarinnar væru enn vanmetnar og eignir ofmetnar. Það er a.m.k. reynsla Finna sem fóru í gegnum fjármálakreppu í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar, fjármálakreppu sem talin er minni að umfangi en íslenska fjármálakreppan.

Í öðru lagi þótti mér 75% endurheimtuhlutfall eigna Landsbankans of hátt. Í mun umfangsminna bankahruni hefur þetta endurheimtuhlutfall farið niður í 30%.

Í þriðja lagi fundust mér 5,55% vextir of háir, þar sem verið var að veita ríkisábyrgð á alla upphæð samninganna. Samningarnir eru því sambærilegri við ríkisskuldabréf sem bera um 3,4% vexti í Bretlandi.

Frú forseti. Það var ekki fyrr en ljóst var orðið að mikill meiri hluti fjárlaganefndar myndi samþykkja fyrirvara við ríkisábyrgðina á Icesave-samningunum að ég gat sætt mig við niðurstöðuna.

Fyrirvararnir eru að mínu mati nauðvörn þjóðar sem Bretar og Hollendingar hafa stillt aftur og aftur upp við vegg allt frá því að bankarnir hrundu í október á síðasta ári. Bretar og Hollendingar hafa beitt áhrifum sínum innan Evrópusambandsins og í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að ná fram samningum við Íslendinga um Icesave-innstæðureikningana. Á bak við harða afstöðu alþjóðasamfélagsins er hræðsla við að íslenska þjóðin ætli ekki að standa við skuldbindingar sínar og ógni þar með grundvelli evrópska fjármálakerfisins.

Þverpólitísk samstaða er nauðsynleg ef takast á að sannfæra alþjóðasamfélagið um að íslenska þjóðin vilji standa við þær lagalegu skuldbindingar sem henni ber. Breið samstaða þvert á flokkslínur er jafnframt mikilvæg til að ná fram stuðningi almennings við þá leið sem farin verður í Icesave-málinu til að sættast við alþjóðasamfélagið. Fram kom í könnun sem gerð var af Capacent Gallup í byrjun ágúst að 68% þjóðarinnar væru á móti Icesave-samningunum.

Því ber að halda til haga að fyrirvararnir sem fjárlaganefnd leggur til fela í sér að Íslendingar muni greiða Icesave-lánin að fullu gangi spá Seðlabankans frá í maí sl. eftir um efnahagsþróunina á næstu árum. Greiðslur falla aðeins niður þau ár sem enginn hagvöxtur verður, þ.e. ef svo ólíklega vill til að slíkt gerist.

Íslendingar eru með samþykkt ríkisábyrgðar á Icesave-samningunum að taka á sig alla ábyrgð á meingölluðu regluverki ESB. Erlendur sérfræðingur í skuldaskilum heldur því fram að fjármálaeftirlit í Hollandi, Bretlandi og á Íslandi beri öll ábyrgð á því hvernig fór, ekki aðeins íslenska fjármálaeftirlitið. Allir þessir aðilar vissu að tilskipun ESB um innstæðutryggingakerfið tók ekki til kerfishruns. Icesave-samningarnir eru því óvenjueinhliða og bera þess merki að vera nauðasamningar við þjóð sem alþjóðasamfélagið hefur snúið baki við.

Ástæða þess að ég get samþykkt ríkisábyrgð á Icesave er að ég tel að fyrirvararnir dreifi betur en samningarnir áhættunni á milli samningsaðilanna hvað varðar óvissuna um í fyrsta lagi lagalega skyldu okkar, í öðru lagi endurheimtuhlutfall eigna Landsbankans og í þriðja lagi hvað varðar efnahagsþróunina á lánstímabilinu.

Frú forseti. Þverpólitískur hópur hagfræðinga úr öllum flokkum á þingi vann efnahagslega fyrirvara sem tryggja eiga að greiðslubyrði íslenska þjóðarbúsins verði í samræmi við greiðslugetu þess. Fyrirvarinn sem setur þak á greiðslur miðar við að Icesave-skuldbindingin sé greidd að fullu gangi forsendur Seðlabankans eftir varðandi hagvöxt, gengi og endurheimtur.

Greiðslur dreifast hins vegar öðruvísi en gert er ráð fyrir í lánasamningunum þar sem þær verða léttari í upphafi greiðslutímabilsins og þyngjast síðan. Eins og margir hafa bent á markar fyrirvarinn tímamót við gerð lánasamninga við mjög skuldsettar þjóðir. Það er von margra að fyrirvarinn, sem setur þak á greiðslubyrðina, verði fordæmisgefandi fyrir fátækar þjóðir.

Þegar Icesave-samningarnir voru undirritaðir lá fyrir mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á skuldaþoli þjóðarbúsins sem gert var í nóvember 2008. Eitt meginhlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi er að meta skuldaþol þjóðarbúsins og þrýsta á um aðgerðir til að draga úr skuldsetningu telji sjóðurinn líkur á greiðslufalli eða að þjóðin geti ekki greitt af lánum sínum við erlendar þjóðir.

Stuttu eftir undirritun Icesave-samninganna komu fram upplýsingar um að skuldabyrði þjóðarbúsins árið 2009 væri mun meiri en AGS gerði ráð fyrir í nóvember 2008. Hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins af vergri landsframleiðslu var ekki lengur 160% heldur 240%. Þetta hlutfall taldi AGS ósjálfbært fyrir íslenskt efnahagslíf í nóvember sl. Þess ber að geta að Argentína fór í greiðsluþrot árið 2002 þegar þetta hlutfall var komið í 140%. Digrir lífeyrissjóðir landsmanna eru taldir réttlæta mun meira skuldaþol íslenska þjóðarbúsins og vekur það upp spurningar um réttmæti mats AGS á skuldaþoli.

Miklar líkur eru á að þjóðarbúið og ríkissjóður muni þurfa að taka á sig of miklar skuldbindingar í kjölfar bankahrunsins. Enn eru ekki öll áhrif fjármálakreppunnar á skuldastöðuna komin fram. Auk þess er AGS þekktur fyrir að leyfa of mikla skuldsetningu landa sem hafa neyðst til að leita ásjár hans. Það er því mikilvægt að setja mörk á skuldaþolið og krefjast endurskoðunar Icesave-samninganna þegar skuldsetningin er komin fram úr því sem rík þjóð getur staðið undir. Þessi skuldamörk þjóðarbúsins eru vel skilgreind í nefndaráliti meiri hlutans og í samræmi við mat AGS á skuldaþoli Íslands sem vísað er í í efnahagslega fyrirvaranum.

Frú forseti. Ég vil að lokum geta þess að ég tel ekki að fyrirvararnir við ríkisábyrgðina feli í sér gagntilboð þar sem við munum standa við samningana gangi forsendur eftir um efnahagsþróun á næstu árum. Hafni hins vegar Bretar og Hollendingar þessum fyrirvörum lít ég svo á að semja þurfi upp á nýtt um Icesave-skuldbindingarnar. Í þeim samningaviðræðum verða Íslendingar að krefjast lægra vaxtastigs og að dómstólar skeri úr um hver sé raunveruleg lagaleg skylda okkar gagnvart Icesave-innstæðureikningunum.