137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:13]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir spurninguna. Ég hef sjálf lýst því yfir að það sé ekki hægt að gera fyrirvara við þessa samninga vegna þess að það stendur í breska samningnum að ríkisábyrgðin sé skilyrðislaus. En ég tel eftir að hafa legið aðeins yfir þessu máli að komið hafi fram upplýsingar eftir að samningarnir voru undirritaðir sem sýna mun verri stöðu þjóðarbúsins og ríkissjóðs en gert var ráð fyrir við gerð samninganna og að þessi slæma staða okkar muni verða til þess að Bretar og Hollendingar íhugi hvort ekki sé rétt að samþykkja ríkisábyrgð með fyrirvörum. Í sjálfu sér finnst mér ekki svo slæmt ef þeir hafna þessum fyrirvörum og að nýjar samningaviðræður hefjist hér aftur.