137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir bæði upplýsandi og góða ræðu. Vonandi hefur verið tekið eftir þessari ræðu því að ég hef ekki heyrt aðra stjórnarliða halda jafngóða ræðu um þetta mál.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um það að þverpólitísk samstaða er nauðsynleg ef við ætlum að ná árangri og ég er þeirrar skoðunar að við hefðum betur gengið frá þingsályktunartillögu þar sem við hefðum sagt skýrum orðum að við mundum standa við okkar skuldbindingar en vildum vinna okkur tíma í þessu máli. Það hefur hins vegar ekkert verið gert til þess að ná þverpólitískri samstöðu. Þess vegna erum við m.a. að ræða þetta hér seint um kvöld, sem er í besta falli kjánalegt.

Ég vil spyrja hv. þingmann, ég spurði hæstv. forsætisráðherra að þessu í dag og fékk ekkert svar: Veit hv. þingmaður af hverju þetta stóra mál var keyrt í gegnum ríkisstjórnina án samþykkis ráðherra? (Forseti hringir.) Þá er ég að vísa til afstöðu Ögmundar Jónassonar, hæstv. heilbrigðisráðherra, sem (Forseti hringir.) hv. þingmaður fór ágætlega yfir áðan.