137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:22]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir fyrirspurnina. Ég get ekki annað en verið sammála að það hefði náttúrlega verið æskilegra að samninganefndin hefði farið með það umboð að semja í samræmi við þessi viðmið, Brussel-viðmiðin. Því miður var samningsumboðið eða samningsverkefni nefndarinnar skilgreint mjög þröngt. Ég þekki ekki til hvernig það kom til en ég tel samt að samninganefndin hafi gert sitt ýtrasta til þess að ná því sem hún gat náð fram. Hún hafði aftur á móti ekki nógu góðar upplýsingar um skuldastöðu þjóðarbúsins. Ef þær upplýsingar hefðu legið fyrir hefði það styrkt samningsstöðu okkar hvað varðar að gera Bretum og Hollendingum grein fyrir því að við gætum ekki tekið á okkur hvaða skuldbindingu sem væri.