137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér ríkisábyrgð vegna svokallaðra Icesave-samninga. Ég vil í upphafi máls míns þakka sérstaklega formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, og starfandi varaformanni, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, sem og nefndarmönnum öllum fyrir einstaklega gott samstarf. Ég vil líka þakka starfsfólki þingsins, nefndarriturum og öllum þeim sem komu að þessu máli, því það er ekki ofsögum sagt, frú forseti, að þetta ágæta fólk vann mjög gott starf við mjög erfiðar aðstæður. Ég vil árétta að þetta fólk er búið að standa nótt eftir nótt við að klára þessi mál.

Mig langar að snúa aðeins að forsögu málsins. Það er búið að fara mjög vel yfir aðdraganda málsins í mörgum þingræðum í dag og rekja forsöguna alveg aftur til þess þegar bankarnir hrundu en mig langar aðeins að fara yfir hvernig þetta kom að þinginu og hvernig staðið var að skipun samninganefndarinnar.

Með breytingartillögum fjárlaganefndar hefur náðst breið pólitísk sátt um þetta mál og hvernig menn ætla að klára það, eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir kom hér inn á áðan. Ég tel hins vegar, frú forseti, að æskilegra hefði verið að lagt hefði verið af stað í þá vegferð í upphafi. Ég held að ef menn byrjuðu upp á nýtt, eins og stundum er sagt þó að það sé ekki hægt að spóla aftur í tímann, stæðu menn öðruvísi að því hvernig þetta var gert. Ég hefði talið mjög skynsamlegt að í samninganefndinni hefðu verið sérfræðingar á því sviði. Þá er ég ekki að gera lítið úr þeim ágætu einstaklingum sem þar voru, alls ekki. Ég efast ekki um að þeir hafi lagt sig alla fram og reynt að verja hagsmuni Íslendinga eins og þeim var framast kostur en eins og samningarnir birtust okkur hér í upphafi voru þeir mjög einhliða. Því hefði ég talið æskilegt að þegar farið var af stað hefðu menn skipað sérfræðinga í þessum málum.

Eins vil ég reifa aðeins hvernig þetta kom fyrir þingið þó að það hafi verið gert í dag líka. 3. júní kom kynning frá formanni samninganefndarinnar og eftir það voru viðbrögð í þinginu með þeim hætti að þá hefðu menn átt að stíga aðeins á bremsuna. Alvarlegar athugasemdir voru gerðar við það sem kynnt var og síðan var skrifað undir samninginn 5. júní. Síðan erum við búin að hafa þetta mál til meðferðar í þinginu og í fjárlaganefnd mjög lengi og það hefur tekið miklum og góðum breytingum með þeim breytingartillögum sem þar liggja fyrir. Ég vil hins vegar ítreka að allir þeir aðilar sem sátu í fjárlaganefnd lögðu sitt af mörkum til að ná þessari sátt, það eiga allir þátt í því.

Menn hafa kvartað yfir því að upplýsingum hafi verið haldið til hliðar og menn hafi ekki fengið þær en ég vil sérstaklega taka það fram að hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, hefur aldrei gert það gagnvart okkur í fjárlaganefnd. Hann hefur orðið einstaklega vel við beiðnum okkar, þegar við höfum óskað eftir upplýsingum hefur hann aldrei gert annað en að kalla eftir þeim og beita sér fyrir því að þær kæmu fyrir augu fjárlaganefndar.

Eins og ég sagði áðan sitjum við uppi með þessa samninga frá 5. júní og þá lá strax fyrir og mönnum mátti vera ljóst að ekki var þingmeirihluti fyrir þeim samningum sem þá voru undirritaðir. Síðan hafa menn unnið í átt til þess að menn gætu náð sátt og stutt þær breytingartillögur sem þar eru inni.

Ég vil einnig aðeins koma inn á þátt hæstv. forsætisráðherra í þessu máli. Hæstv. forsætisráðherra flutti hér í dag tímamótaræðu að því leyti til að það er í fyrsta sinn sem hún tekur þátt í umræðum á hinu háa Alþingi um Icesave-samninginn án þess að svara óundirbúnum fyrirspurnum. Mér þykir mjög merkilegt að hæstv. forsætisráðherra, leiðtogi okkar, skuli í fyrsta sinn í dag taka þátt í þessum umræðum.

Það sem gerðist í dag, frú forseti, var að hún svaraði hér andsvörum og fór með rangt mál. Hún sagði að samninganefndin hefði náð mun betri samningi en stefnt var að í upphafi. Það var ekki svo, frú forseti, og það hefur verið rifjað upp hér í dag. Hún vitnaði í undirritun á minnisblaði sem var undirritað við Hollendinga 11. október en síðan dró fyrrverandi forsætisráðherra það til baka. Hún gerði mikið úr því að menn hefðu náð betri árangri. Síðan í kjölfar þess, 14. nóvember, þegar hin svokölluðu umsömdu viðmið eða Brussel-viðmiðin voru samþykkt — þegar í byrjun desember lýstu Hollendingar yfir að þeir vildu ganga til samninga miðað við þessi umsömdu viðmið og tilkynntu þá að þeir vildu þegar gefa okkur betri lánskjör. Það er því rangt með farið að þessi samninganefnd sem núna hafi verið að störfum hafi náð betri niðurstöðu.

Svo ég haldi mig við hæstv. forsætisráðherra sagði hún í ræðu sinni í dag að það væri gríðarlega mikilvægt að ljúka þessari umræðu um Icesave-samningana og ég er hjartanlega sammála henni í því. Hún sagði: Til þess að halda áfram og snúa okkur að því að byggja upp. Þá velti ég því fyrir mér, frú forseti, hver þáttur hæstv. forsætisráðherra er í þessu máli. Hún hefur sagt frá upphafi að það yrði að samþykkja þessa samninga og hefur margoft komið fram og sagt að það væri vilji þingflokks Samfylkingarinnar.

Síðan hefur komið fram að þegar menn kýta hér um þessa fyrirvara og breytingartillögur við þessa samninga og kýta um það innbyrðis milli stjórnar og stjórnarandstöðu — sem hefur engan tilgang að mínu viti — þá segir hæstv. utanríkisráðherra í fréttunum um daginn að það þurfi hugsanlega að beita skapandi hugsun til þess að kynna þetta með þeim hætti að Bretar og Hollendingar geti litið svo á að þetta rúmist innan þeirra samninga sem eru, þ.e. miðað við Brussel-viðmiðin. Ég verð þá að segja, frú forseti, að það hefði verið skynsamlegra fyrir hæstv. forsætisráðherra að beita skapandi hugsun frá upphafi þessa máls.

Þá vil ég víkja að því hvernig þetta kemur fyrir allt saman. Deilan vegna uppgjörs Icesave-samninganna er eitt erfiðasta deilumál sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir frá lýðveldisstofnun. Allt frá því að Landsbanki Íslands fór í þrot á haustmánuðum 2008 hefur deilan magnast. Strax og fór að bera á þrýstingi frá innstæðueigendum í Bretlandi og Hollandi beittu stjórnvöld þar í landi öllum brögðum til að fá íslensk stjórnvöld til að gangast við skuldbindingum sem fullkomin óvissa var um hvort leggja ætti á herðar á íslensks almennings. Bretar og Hollendingar hafa allar götur frá í haust neitað Íslendingum um þann sjálfsagða rétt að leita lagalegrar niðurstöðu í deilunni. Þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi strax í upphafi lýst því yfir að þau muni ávallt standa við lagalegar skuldbindingar dugði það ekki Bretum og Hollendingum, á annan hátt en þann að þau stjórnvöld kröfðust þess af Íslendingum að þeir greiddu samkvæmt ýtrustu kröfum. Þrátt fyrir lagalega óvissu beittu þjóðirnar Ísland gríðarlegum pólitískum þrýstingi þegar Íslendingar voru hvað viðkvæmastir fyrir. Meðan íslensk stjórnvöld börðust við að afla nauðsynlegs stuðnings frá alþjóðasamfélaginu vegna þess gríðarlega efnahagslega tjóns sem fall bankanna hafði í för með sér lögðu Bretar og Hollendingar stein í götu Íslendinga hvar sem þeir komu.

Frú forseti. Vinna við frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninganna í fjármálanefnd hefur einkennst af því annar ríkisstjórnarflokkurinn var lengst af ófáanlegur til að gera sér grein fyrir göllum málsins. Þá var hinn ríkisstjórnarflokkurinn, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, klofinn í afstöðu sinni til málsins. Sjálfstæðismenn hafa allt frá upphafi lýst fjöldamörgum göllum á málinu. Framan af var ófært að fá forustu fjárlaganefndar til að fallast á að unnt væri að bregðast við þessum göllum. Vikum saman tók fjárlaganefnd á móti gestum sem bentu nefndarmönnum á galla á samningsgerðinni. Hinn almenni borgari tók það upp hjá sjálfum sér að ígrunda málið og freista þess að hafa áhrif á ríkisstjórnarflokkanna svo að forða mætti því stórslysi sem ella var í uppsiglingu. Sú gagnrýni sem hinir ýmsu sérfræðingar héldu á lofti var mjög í samræmi við málflutning sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd. Loks tókst að leiða ríkisstjórnarflokkunum fyrir sjónir að málið yrði aldrei samþykkt í þeim búningi sem það var.

Raunar er dapurlegt að ríkisstjórnin skuli ekki hafa notað sumarið til að færa málið úr þeim farvegi sem það fór í strax við framlagningu þess. Afstaða stjórnarandstöðunnar til þessara samninga lá strax fyrir og jafnframt það sem er alvarlegra þegar meirihlutastjórn er við völd í landinu að ekki var tryggur stjórnarmeirihluti fyrir málinu. Ríkisstjórnin átti að ganga úr skugga um það áður en farið var í að undirrita samningana í skjóli nætur að tryggur stjórnarmeirihluti væri í málinu. Það er mjög ámælisvert að ríkisstjórnin skuli hafa komið þessu afdrifaríka máli svo fyrir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir því í allt sumar að ríkisstjórnin færi strax í það verkefni að tala máli Íslendinga við viðsemjendur, nágranna- og vinaþjóðir með skipulögðum hætti enda ljóst að samningarnir væru í uppnámi. Þá var talað fyrir daufum eyrum. Það var og er mat Sjálfstæðisflokksins að aldrei sé mikilvægara en einmitt nú að rækta tengslin við nágrannaþjóðirnar og leiða þeim fyrir sjónir hvaða afarkostir felast í þessum samningum. Því miður hefur ríkisstjórnin látið þetta mikilvæga verkefni undir höfuð leggjast.

Að mínu mati hefði verið farsælast að hefja þegar viðræður við Breta og Hollendinga um þá stöðu sem uppi er á Alþingi vegna þessa máls með það að markmiði að afla fylgis við nýja samninga. Ef slíkir samningar bjóðast ekki hlýtur þrautalendingin ávallt að vera sú að ríkið láti reyna á sinn lagalega rétt í málinu svo úr því fáist skorið hverjar skuldbindingar okkar eru.

Niðurstaðan í fjárlaganefnd varð sú að setja skýra fyrirvara við ríkisábyrgðina. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki þátttakandi í þeirri niðurstöðu en vann þó að henni ásamt fulltrúum allra flokka í fjárlaganefnd. Fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í nefndinni leggja tillögurnar fram með stuðningi Borgarahreyfingarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd styðja þær en áskilja sér þó rétt til að leggja fram eða styðja aðrar tillögur sem eru til þess fallnar að styrkja málið enn frekar.

Þeir fyrirvarar sem nú liggja fyrir í formi breytingartillagna meiri hlutans eru í samræmi við þær athugasemdir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft við samningana frá upphafi og barist fyrir að tekið yrði tillit til, sem og fjölmargir almennir borgarar og sérfræðingar sem rannsakað hafa samningana og verið óþreytandi í að benda á vankanta þeirra. Ber að þakka þeim sérstaklega fyrir það.

Frú forseti. Ég tel það skipta miklu máli hver afstaða manna er til þessara fyrirvara. Það er ekki æskilegt að uppi sé ágreiningur milli stjórnar og stjórnarandstöðu um gildi þeirra. Um þetta er það að segja eins og svo margt annað í þessu máli að það gildir einu hvað þingmenn og flokkar segja hver við annan hér á landi um efni og túlkun samninganna, niðurstaðan hlýtur alltaf að vera sú að það er afstaða viðsemjendanna sjálfra sem öllu máli skiptir. Rétt er að minna á að Íslendingar verða að fara fram á rannsókn hið fyrsta á því hvernig það mátti vera að hægt var að misbeita Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sl. haust í þágu þriggja aðildarríkja á kostnað eins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er stofnun sem ekki tekur þátt í tvíhliða deilum og það er ekki í anda stofnsamningsins sem samþykktur var í júlí 1944 að beita sjóðnum eins og gert var sl. haust til að þvinga Ísland til þess að gangast undir og greiða Icesave-ósómann. Það hefur líka komið fram í máli lögfræðinga að sé þetta rétt, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi misbeitt valdi sínu hér, er hann orðinn skaðabótaskyldur gagnvart íslenskri þjóð vegna þess að hann má það ekki samkvæmt stofnskrá sinni.

Frú forseti. Tíminn líður hratt en mig langar að víkja aðeins að þeim breytingartillögum sem samkomulag varð um í fjárlaganefnd og gjörbreyta þessu máli að mínu mati. Í fyrsta lagi er nefnt í sambandi við 1. málslið að lánasamningarnir verði túlkaðir í samræmi við hin umsömdu viðmið. Það er búið að fara yfir það hver þau eru og í því felst að íslensk þjóð geti risið upp og endurreist fjármála- og efnahagskerfi sitt. Á þeim er hert hér, þau voru ekki nógu góð eins og þau voru.

Enn fremur „að staða Íslands sem fullvalda ríkis komi í veg fyrir að gerð verði aðför í eignum þess“. Það ákvæði er styrkt líka.

Einnig „að hvergi sé haggað við óskoruðum yfirráðum Íslands yfir náttúruauðlindum“.

Síðan er einnig hnykkt á því og sett tímamótaviðmið, þ.e. um hvernig staðið verði að endurgreiðslum, hin svokölluðu efnahagslegu viðmið. Eins og kom fram í fréttum nú á dögunum í viðtali við prófessor úti í löndum er þetta í fyrsta sinn síðan á þriðja áratugnum sem ríki gerir samning af þessu tagi, þ.e. að miðað sé við greiðslugetu þjóðarinnar. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fór vel yfir þetta áðan en þetta byggir á því að menn greiða hér af vexti landsframleiðslu en ekki með prósentu af landsframleiðslu. Það er gríðarlega mikilvægt til þess að við getum komist út úr þeim efnahagslegu hremmingum sem við erum í og byggt okkur upp.

Ef við hefðum borgað prósentur af landsframleiðslu hefðum við getað lent í því að borga jafnvel þegar enginn hagvöxtur er hér og þá hefðum við getað lent í fátæktargildru eða katastrófu eins og sagt er. Jón Daníelsson, hagfræðingur í London, benti einmitt á það í grein í Morgunblaðinu hvað það væri mikilvægt að gera þetta með þessum hætti, þ.e. að ef það væri enginn hagvöxtur mundu menn ekki greiða neitt. Ef það er enginn hagvöxtur og við ætlum að greiða höfum við tvær aðferðir til þess, það er annars vegar að auka skatttekjur eða draga úr þjónustu og við vitum alveg hvað það þýðir.

Einnig er hert á þeim lagalegu viðmiðum sem eru í samningunum en ég ætla ekki að lesa það upp hér. Eins er farið inn á endurskoðun lánasamninganna og hnykkt á því hvernig staðið skuli að því. Endurskoðunarákvæðið í lánasamningnum var mjög veikt og það var lengi vel kallað í fjárlaganefnd „teboð“, þ.e. samningsaðilar voru skyldugir til að setjast niður og ræða málin en í því fólst ekkert annað. Margir bentu okkur á að þetta endurskoðunarákvæði væri mjög veikt og æskilegt væri að styrkja það.

Síðan kemur líka nýtt efni inn í þetta, bæði varðandi eftirlit Alþingis og eins er farið fram á að menn óski eftir eða grípi til nauðsynlegra ráðstafana til endurheimta það fé sem safnaðist inn á Icesave-reikningana. Í þeim tilgangi skal ríkisstjórnin hafa frumkvæði og samstarf við yfirvöld í Bretlandi, Hollandi og Evrópusambandinu. Þetta er líka mikilvægt í þessum endurskoðunarákvæðum.

Tími minn er senn á þrotum, frú forseti, og ég vil rétt í lokin ítreka þakkir mínar til allra nefndarmanna í fjárlaganefnd sem unnu þetta sameiginlega og eiga allir sinn þátt í þessum breytingartillögum sem að mínu viti gera málið allt annað. Það ber að fagna þeim góða anda sem náðist í fjárlaganefnd og því trausti sem menn sýndu hver öðrum þar. Ég ítreka enn og aftur, hæstv. forseti, þakkir mínar til samnefndarmanna í fjárlaganefnd.