137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðu hans. Mig langar að spyrja þar sem hann á sæti í fjárlaganefnd hvernig sú umræða fór fram, hversu miklum tíma var eytt í hana og hvort það hafi verið efnisleg umræða um að yfir höfuð hafi ekki verið ríkisábyrgð á Icesave-samningunum samkvæmt tilskipun 94/19/EB.

Franski seðlabankinn kvað upp úr um það árið 2000 að það væri ekki ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðnum þar. Hér í kaflanum um lagalega óvissu frá meiri hluta fjárlaganefndar er ákvæði eða umræða um það að dómur Evrópudómstólsins í máli nr. C-222/02 hafi komið þar inn. Það hefur alltaf verið litið til þess að dómar Evrópudómstólsins séu fordæmisgefandi, eins og á við um aðra dómstóla þegar um æðsta dómstig er að ræða. Með leyfi forseta ætla ég að fá að lesa þetta upp:

„Bent var á dóm Evrópudómstólsins í máli nr. C-222/02 en þar segir að tilskipunin geti ekki gert aðildarríki eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmála í tilskipuninni.“

Var þetta mál ekki skoðað ofan í kjölinn? Þetta er raunverulega grunnurinn að Icesave-málinu hér á landi, hvort það sé yfir höfuð nokkur ríkisábyrgð á Icesave-samningunum.