137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir veltir sér upp úr þessari lagalegu óvissu sem svo sannarlega er og ég er búinn að svara því. Það er lagaleg óvissa um þetta mál.

Menn velta fyrir sér hvers vegna verið er að krefjast ríkisábyrgðar við hliðina á samningnum ef það væri ríkisábyrgð á annað borð. Menn geta svo sem rætt það mál fram og til baka.

Ég verð að segja, frú forseti, að málið er á forræði ríkisstjórnarinnar. Þessi farvegur og sú afstaða sem við tókum í þessu máli er í samræmi við það sem lagt var upp með 5. desember, að menn mundu leita þessara leiða til að fara samningaleiðina því menn voru búnir að prófa þessa svokölluðu dómstólaleið. Við þekkjum niðurstöðuna af því þar sem menn sögðu sig frá henni áður en fyrir lá hvernig það yrði. Þá komum við kannski að mergi málsins því við höfum í raun og veru alltaf nauðbeygt okkur í þessum málum. Ég kom inn á það í ræðu minni og margir aðrir hafa nefnt hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hagað sér í þessum málum. Hv. þingmaður ýjar kannski að því hvort eigi að fara dómstólaleiðina en ég held að á það hafi verið reynt í haust þegar við fengum alþjóðasamfélagið upp á móti okkur. Því er reyndar haldið til haga inni í breytingartillögunum að við séum ekki búin að falla frá okkar lagalega rétti, það er hnykkt á því í breytingartillögunum þótt það sé reyndar ekki í samningnum.