137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu eins og margar ræður hafa verið í dag. Þetta er mjög málefnaleg umræða.

Varðandi það sem hann sagði um ríkisábyrgðina og samninginn, bresk lög segja að það sem standi í samningnum gildi, þá segir samningurinn við punkt 6.2 Ábyrgð og skaðleysi: „Íslenska ríkið ábyrgist, skuldbindur sig o.s.frv.“ Þessi samningur sem einhverjir einstaklingar skrifuðu undir í krafti ákveðinna embætta sem þeir hafa, einn var fjármálaráðherra Íslands, annar var fyrir hönd stjórnar innlánstryggingarsjóðs. Svo voru væntanlega fulltrúar bresku og hollensku ríkisstjórnarinnar sem skrifuðu undir þennan samning. Þessir aðilar geta ekki skuldbundið ríkissjóð Íslands vegna þess að í 40. gr. stjórnarskrár Íslands — Bretar hafa ekki stjórnarskrá, við skulum hafa það í huga — í 40. gr. stjórnarskrár Íslands stendur, með leyfi frú forseta: „Ekki má taka heldur lán … nema samkvæmt lagaheimild.“ Þetta segir mér að enginn getur sótt peninga í ríkissjóð Íslands, til íslenskra skattgreiðenda, nema fyrir því sé lagaheimild. Það er alveg sama hvað hver maður skrifar undir, ég leyfi mér að segja úti í bæ, hvort sem það er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, hvort sem það er hæstaréttardómari eða hver það er sem skrifar undir, hann getur ekki skuldbundið ríkið. Þetta eiga menn að vita, þeir sem eru að semja fyrir ríkisstjórnina. Þess vegna er sú ríkisábyrgð sem við erum að ákveða hérna, með þeim takmörkunum sem við ákveðum, hún gildir.