137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég sé ekki alveg sammála hv. þingmanni með það — ég er reyndar mjög oft sammála hv. þm. Pétri Blöndal, ekki síst þegar við ræðum Evrópumál, en ég er ekki viss um að ég sé sammála honum með að Framsóknarflokkurinn hafi eitthvað fært sig úr þessum viðkvæma, nýja meiri hluta. Ég hef grun um að hinn nýi, viðkvæmi eða sá viðkvæmi meiri hluti sem var hafi einfaldlega gefið eftir, þeir flokkar sem samþykktu þá fyrirvara sem hér er verið að ræða. Framsóknarflokkurinn stóð hins vegar áfram á því að þeir þyrftu að vera stífari, við þyrftum að halda okkur við það plan sem lagt var af stað með, þá fyrirvara sem taldir voru nauðsynlegir. Það eru aðrir sem fóru að gefa eftir, held ég, hv. þingmaður.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, þó að ríkisábyrgðin sé takmörkuð verður að vera alveg ljóst hvort hún tekur til samningsins í heild, hvort hún taki til einstakra greina eða hvort hún taki á ákveðnum hlutum er varða samninginn. Ég fæ ekki séð, því miður, að eins og þetta er fram sett í dag taki hún t.d. á því sem er talað um í greinum 6.2.–6.5. Ég sé ekki að hún taki á því. Mér finnst vanta að skerpa á því.

Ég held að það sé alveg ljóst að samningurinn tekur gildi þegar ríkisábyrgðin hefur verið samþykkt. Ef ríkisábyrgðin takmarkar eitthvað þarf að skýra nákvæmlega hvað það er sem ríkisábyrgðin takmarkar. Þeir efnahagslegu fyrirvarar sem eru settir eru mjög nauðsynlegir og munu létta okkur lífið, það er engin spurning, þeir munu gera það en halda þeir gagnvart öðrum greinum, t.d. ef farið verður í skaðabótamál við okkur? Hvaða máli skipta þeir þá? Getum við farið í skaðabótamál við breska þingið eða erum við að afsala okkur því? Það eru spurningar sem þarf að velta fyrir sér.

Varðandi það sem hv. þingmaður spurði, hvort Framsóknarflokkurinn væri til í að koma aftur, (Forseti hringir.) Framsóknarflokkurinn hefur aldrei skorast undan því að ræða málin og við munum halda því áfram.