137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er athyglisverð umræða. Hér hafa tvær kröftugar konur bæði farið í læknisfræðina og dýrafræðina, talað um heilagar kýr og meinsemd. Ég held hins vegar að sú meinsemd sem er hvað alvarlegust núna sé að annar stjórnarflokkurinn hefur svo mikinn áhuga á því að ganga í samband Evrópuríkja að allt annað virðist víkja. (Gripið fram í: Ekki aftur.) Jú, jú, og oftar, hv. þingmaður.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi hvort hún telji að 25 milljarða aukakostnaður út af vaxtagreiðslum sé eðlilegur varðandi þessa samninga. Mig langar líka að spyrja hana — ef það er kvikindislegt má hún bara sleppa því — hvernig hún túlki grein 6.5 sem ég fjallaði um áðan.

Mér þótti vænt um að heyra (Forseti hringir.) að hún hefur áhyggjur af niðurfellingu skulda. (Forseti hringir.) Er hún þá hlynnt því að fella niður skuldir heimilanna að einhverju marki?