137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:16]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég átta mig ekki alveg á því eftir hverju þingmaðurinn er að fiska. 25 milljarðar í mínum eyrum hljóma ekkert sem eðlileg tala, ekki heldur 1.000 milljarðar. Upphæðir og krónutölur í þessu sambandi eru afstæðar og erfiðar í þessari umræðu. Það verður náttúrlega að ræða þá hluti í einhverju samhengi. (Gripið fram í.)

25 milljarðar eru gríðarlega há fjárhæð. (Gripið fram í: Það eru vextir.) Ég veit að það eru vextir. Ég vil frekar tala um kjörin á þessum samningi sem eru 5,5% vextir. Ég hef bara ekki forsendur til annars en að fallast á þau rök að það teljist eðlileg kjör á samningi sem þessum.

Varðandi niðurfellingu skulda heimilanna, auðvitað viljum við gera allt sem hægt er til að aðstoða heimilin í landinu í þeim skuldavanda sem víða er við að etja og ég veit ekki betur en (SDG: Almenn aðgerð?) að bankarnir og hið opinbera séu á fullu við að aðstoða fólk í greiðsluerfiðleikum, (Forseti hringir.) m.a. að afskrifa skuldir. Almenn aðgerð er nokkuð sem við höfum ekki (Forseti hringir.) haft á stefnuskrá okkar enn sem komið er, enda teljum við að það sé mun nær að reyna að skoða málið (Gripið fram í.) í ljósi einhverrar jafnaðarmennsku. Jöfnuður er ekki endilega fólginn í því að (Forseti hringir.) allir fái það sama, heldur að hver maður fái það sem honum ber og hann þarf.