137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður nefndi aðkomu Svía í þessu máli og ég verð að viðurkenna að Svíar eða sænsk stjórnvöld hafa valdið mér miklum vonbrigðum. Reyndar er rétt að geta þess að að miklu leyti er þetta kannski vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa ekki einu sinni haft fyrir því að útskýra málstaðinn fyrir Svíum.

Þegar hv. þingmaður nefndi Stokkhólm hvarflaði að mér: Getur verið að ríkisstjórnin sé haldin svokölluðu Stokkhólms-heilkenni? Þegar því er flett upp í orðabók er það útskýrt sem sálfræðilegt ástand sem lýsir sér svo að þegar einhverjum er ógnað verulega en sýnt eitthvað sem þeir telja vera örlitla tilslökun fari þeir allt í einu að líta upp til kvalara sinna og mynda við þá einhvers konar samband og telja að allir smágreiðar sem þeim eru gerðir séu einhvers konar eftirgjöf, átta sig ekki á því að kvalarinn er í raun bara að gæta eigin hagsmuna. Það er talið, skilst mér, að þetta tengist á einhvern hátt eðli mannsins á þann hátt að smábörn eigi að mynda tengsl við fyrsta fullorðna fólkið sem þau kynnast svona til þess að þeir fullorðnu geti þá væntanlega gætt hagsmuna þeirra. En einnig eru kenningar um að þetta eigi rætur að rekja til ættbálka þar sem tíðkaðist að taka kannski einn í gíslingu og þegar þessi eini hafði verið einangraður frá sínum ættbálki, einn eða nokkrir, fór að myndast sterk samkennd með þeim við þá sem höfðu tekið þá í gíslingu. Allt það sem kvalararnir gerðu var túlkað sem greiðasemi og hollustan varð á endanum algjör við mannræningjana.

Er hugsanlegt að þetta skýri það sem við þingmenn margir höfum verið að velta fyrir okkur mjög lengi með þessa ríkisstjórn, hvað skýri þessa órökréttu hegðun hennar í Icesave-málinu?