137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[23:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér fór þingmaðurinn nokkuð mikinn í söguskýringunni og gagnrýndi Samfylkinguna harðlega, nokkurn veginn alla ræðuna. Ég vil upplýsa hv. þingmann ef hann er búinn að gleyma því að það sem hann gagnrýndi hvað harðast var hvorki meira né minna en landsfundur Samfylkingarinnar og samkoma þar sem menn fengu þessa ágætu menn til að halda ræðu. Borgarnesræða fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar gekk mjög mikið út á að hamast á Sjálfstæðisflokknum fyrir að voga sér að gagnrýna t.d. ofurlaun og aðra slíka þætti. Við værum hins vegar ekki að tala um neitt af þessu og værum ekki með Icesave ef við værum ekki með EES-samninginn. Það er svo einfalt. Það eftirlitskerfi sem við þurftum að byggja upp eftir Evrópusambandinu lagði línurnar um hvernig við ættum að gera það, (Forseti hringir.) Samfylkingin stóð vaktina, jafnvel fyrrum forustumenn Samfylkingarinnar voru formenn stjórnar Fjármálaeftirlitsins.