137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[23:28]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru ágætar spurningar og ég skal fúslega viðurkenna að ég get ekki svarað fyrir þá menn sem hún nefndi hér. Þeir voru að spekúlera í sínum ranni, þeir voru að spekúlera út frá sínum (RR: Samt erum við að …) sjónarmiðum. Ég er hvorki Jón Sigurðsson né Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, ég tala hér fyrir minn munn, ég var ekki genginn í Samfylkinguna á þessum tíma og get ekki tjáð mig fyrir hönd þess flokks á þeim tíma. Þessir menn sem hv. þingmaður nefndi á nafn töluðu væntanlega út frá sínu brjósti á þeim tíma. Ég var ekki í þeirra ranni á þeim tíma og get þess vegna ekki talað fyrir þeirra hönd. Þó það nú væri. (Gripið fram í: Þú getur gert það …) Mín skoðun er einfaldlega sú (Gripið fram í: Þú getur gert …) að þessir flokkar og þessir menn hafi ekki haft réttar upplýsingar til taks þegar þessi ummæli voru uppi höfð.