137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:01]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur margt verið rætt um það mál sem við fjöllum hér um í dag, um ríkisábyrgð á lán vegna Icesave-skuldbindinganna erlendis. Óhætt er að fullyrða að fá mál, ef nokkur, hafi fengið jafnítarlega umræðu í fjölmiðlum og meðal almennings á Íslandi á jafnskömmum tíma sem þetta. Og það er gott, svona mál þurfa að fá góða umræðu, svona mál þurfa að fá að gerjast meðal þjóðarinnar. Öll sjónarmið þurfa að komast upp á borðið og svona mál verða að standast rök.

Virðulegi forseti. Hér verður hvorki haldin löng ræða um þetta mál né farið yfir víðan völl hvað það varðar, hvorki forsögu þess né annað þó að ástæða þætti kannski til. Þetta mál felur vissulega í sér ákveðin tækifæri til pólitískra slagsmála, því er ekki að leyna. Það felur líka í sér ákveðin tækifæri til pólitísks uppgjörs, bæði innan flokka og milli flokka. Á það hefur talsvert reynt í umræðunni á Alþingi, aðallega í gær, en ég verð þó að segja það, forseti, að ég hef orðið fyrir talsverðum vonbrigðum með þann málatilbúnað sem orðið hefur hér í umræðunni oft og tíðum. Mér finnst að of oft hafi þingmenn skotið yfir markið í málflutningi sínum og hvorki gert málinu gagn með því né aukið á virðingu sem þarf þó svo sannarlega á því að halda einmitt í dag.

Það er vissulega svo að þetta mál er mörgum okkar afar erfitt. Og þá er ég ekki einungis að meina hvað það varðar sem snýr að okkur öllum sem Íslendingum og þeim byrðum sem það leggur á okkur hvert og eitt sem er nógu erfitt út af fyrir sig, þetta er líka mörgum okkar mjög erfitt pólitískt, hugmyndafræðilega. Þetta hefur reynst erfitt innan flokka og milli flokka og það eru erfiðleikar sem við eigum að hafa kjark í að gera upp sömuleiðis.

Margir, bæði hér á Alþingi og utan þings, hafa þurft að gera upp hug sinn hvað þetta mál varðar, hvað hugmyndafræði þeirra varðar. Fólk hefur þurft að gera upp við sinn pólitíska veruleika og stilla þann kompás upp á nýtt.

Það á kannski ekki síst við um þá sem fylgt hafa þeim flokkum að málum sem ýttu þessum óskapnaði úr vör á sínum tíma, skiljanlega því að ef menn láta slíkt tækifæri fram hjá sér fara sem hér um ræðir, til að gera upp hug sinn, að endurskoða sína pólitísku stefnu, hugmyndafræði sína, er mér nær að ætla að slíkt tækifæri komi ekki aftur upp á borðið.

Það er því svo sannarlega þannig að margir, en því miður ekki allir, á þeim væng stjórnmálanna sem réðu hér ferðinni hvað lengst þegar þetta mál fór af stað, hafa þurft að endurskoða hugmyndafræði sína í ljósi þess veruleika sem blasir við þeim í dag. Ég vil hins vegar trúa því og ég ætla að trúa því að þeir sem þó bera mestu pólitísku ábyrgð á þeim ósköpum sem við stöndum í í dag, hægri flokkarnir á Íslandi, hafi sjálfir í upphafi trúað því að þeir væru að gera landi sínu gott. Ég vil ekki trúa því upp á nokkurn mann, upp á nokkurn stjórnmálamann úr framvarðasveit íslenskra stjórnmála á undanförnum árum og áratugum, að þeir hafi ætlað með pólitískum aðgerðum sínum og gjörðum að skaða Ísland eða Íslendinga. Ég vil ekki trúa því upp á nokkurn einasta mann, og ég ætla að ganga út frá því í þeirri umræðu sem hér á sér stað.

Jafnvel þótt farið hafi fyrir okkur sem gerði vil ég trúa því að viljinn hafi verið hjá öllum til að leiða landið áfram til betri tíma, til betra lífs fyrir Íslendinga, en ekki að skaða landið og Íslendinga eins og reyndin hefur þó orðið. Ég ætla að ganga út frá því að svo hafi verið.

Þetta mál hefur reynst þjóðinni afar erfitt. Íslensk þjóð hefur þurft að axla meiri og ósanngjarnari efnahagslegar byrðar en nokkru sinni áður. Og þá er ég ekki eingöngu að tala um Icesave-málið, atvinnuleysið er meira en við höfum áður þekkt og fjölskyldur eiga erfiðara en áður með að framfleyta sér. Lánin hækka, skuldir aukast og að auki blasir það síðan við að þjóðin mun þurfa að axla þær þungu byrðar sem fylgja þessu máli sem við ræðum í dag. Og það er ósanngjarnt, það hefur aldrei verið sagt annað. Það er mjög ósanngjarnt en það verðum við þó að gera. Þetta bíður okkar, þetta blasir við og við verðum að leysa það með þeim hætti.

Mér finnst þess vegna oft og tíðum að þingmenn hafi afgreitt þetta mál pínuléttvægt hér í umræðunni með uppskrúfuðum málfundaræfingum sem ekki hafa gert neitt einasta gagn. Það hefur brunnið við að menn hafi farið í þessa umræðu með þeim hætti hér á undanförnum vikum og mánuðum. Það gerðist ítrekað í gær og ég ætla að vona að það gerist ekki aftur vegna þess að það er ekki málinu til framdráttar og ekki í samræmi við alvarleika málsins.

En þetta mál hefur líka reynst fleirum erfitt en þeim sem fylgdu þeim flokkum að málum sem ýttu þessu máli af stað á sínum tíma. Það hefur reynst okkur í mínum flokki erfitt, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Það hefur reynst okkur erfitt að glíma við þetta mál þó að við teljum okkur ekki eiga nokkra sök á þeirri stöðu sem við erum í í dag. Ég tel að við eigum ekki nokkra sök á henni. Nema þá kannski að við höfum ekki staðið vaktina nóg, nema þá kannski að við höfum ekki haft nógu hátt, ekki látið nógu skýrt í okkur heyra, ekki verið nógu öflug í að vara við og benda á það sem við þóttumst þó sjá að væri fram undan að einhverju leyti. Það má saka okkur um það en ekki um það hrun sem varð hér í haust. Það má ekki saka okkur um að við berum ábyrgð á því máli sem við erum að afgreiða hér í dag.

Það hefur hins vegar komið í okkar hlut að koma að lausn þessa máls, það er á okkar ábyrgð fyrst og fremst að leysa þetta mál í samstarfi við Samfylkinguna í ríkisstjórn. Við berum ábyrgð á því og við ætlum að bera þá ábyrgð og það má skammast og atast í okkur fyrir það en ekki vegna þess hvernig komið er. Í umræðunni um Icesave-málið hér á þingi og víðar hefur stundum mátt ætla að Vinstri hreyfingin – grænt framboð væri það stjórnmálaafl sem ber mesta ábyrgðina og það væri við okkur að sakast hvernig væri komið en ekki aðra. Það hefur mér fundist ósanngjarnt því að fátt er fjær sanni. Það var ekki ríkisstjórn Vinstri grænna sem einkavæddi bankana á sínum tíma. Það voru ekki ráðherrar Vinstri grænna sem handvöldu vini sína og létu þá fá bankana til ráðstöfunar. Það voru ekki vinstri grænir félagsmenn sem fengu Landsbankann afhentan á sínum tíma og ráðstöfuðu honum með þeim hætti sem olli hruninu, svo það sé alveg á hreinu.

Ég biðst ekki undan málefnalegri umræðu um Icesave-málið, ég biðst ekki undan pólitískri umræðu um Icesave-málið, málefni sem byrjar á rökum og málefnalegum hætti, ég biðst ekki undan því. En ég biðst undan því að vera sakaður um að bera ábyrgð á því sem ég geri ekki og flokkur minn gerir ekki.

Það mál sem við erum að leiða til lykta í dag, Icesave-deilan — eða á næstu dögum skulum við ætla — þetta ömurlega mál, er eitt af því ljótasta sem gerst hefur í efnahagslífinu á Íslandi og Icesave-deilan er orðin að táknmynd alls þess versta sem gerst hefur á undanförnum árum í íslensku efnahagslífi. Orðið eitt og sér, Icesave, hverfist um allt það mál frá upphafi til enda.

Það er rétt að sá skilningur sem ég hef á þessu máli komi fram með skýrum hætti af minni hálfu og á þeim breytingartillögum sem lagðar eru fram við frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgðina vegna þess að mér hefur fundist vera misskilningur á ferðinni hvað það varðar, að þeir samningar sem gerðir voru við Hollendinga og Englendinga og undirritaðir í byrjun júní standa enn, það hefur ekki eitt einasta orð breyst þar. Þeir standa algjörlega óhreyfðir, hvert einasta orð, frá upphafi til enda. Samningunum hefur ekki verið breytt með nokkrum einasta hætti og engar þær breytingar sem lagt er til að verði gerðar á frumvarpinu hreyfa við samningunum, þær breyta ekki samningunum. Ríkisábyrgðin mun eftir sem áður ná til höfuðstóls þeirra lána sem um ræðir á milli Íslands og Hollands auk vaxta. Það hefur ekki breyst í meðförum nefnda, um það snýst ríkisábyrgðin, um að ríkið ætlar að ábyrgjast greiðslur á heildarláninu eins og það stendur á 1. gjalddaga til lokadags. Það hefur ekkert breyst í því, það er engin breyting á því í meðförum fjárlaganefndar eða annarra nefnda. Það stendur óbreytt í frumvarpinu, þannig að það sé alveg á hreinu hver skilningur minn er hvað það varðar.

Þessir samningar hafa auðvitað verið rýndir mjög á undanförnum vikum og mánuðum sem er mjög gott, þeir hafa verið rýndir af pólitískum augum, farið hefur verið yfir þá með pólitískum stækkunarglerjum, þeir hafa nánast verið gegnumlýstir og flestum þeim athugasemdum og gagnrýnisröddum sem heyrst hafa hefur verið svarað með málefnalegum rökum og flestar þær gagnrýnisraddir hafa hljóðnað. Allar þær gagnrýnisraddir sem hafa heyrst frá fyrsta degi hafa hægt og bítandi hljóðnað. Og hvers konar samningar ætli það séu sem standa af sér slíka gegnumlýsingu og slíka umræðu? Ætli það séu vondir samningar, virðulegi forseti, eða slæmir samningar eða jafnvel ónýtir sem standa þó enn þann dag í dag í þessari umræðu óhreyfðir, óbreyttir, hvert einasta orð? Nei, það eru ekki vondir samningar, það eru ekki ónýtir samningar sem standa slíkt af sér. Það eru góðir samningar sem standa slíkt af sér.

Ég held því fram og hef haldið því fram og ég ætla að halda því fram hér í dag að miðað við þá stöðu sem Ísland var í og er í, miðað við það upplegg sem núverandi ríkisstjórn fékk í hendurnar hvað þetta mál varðar, náðust góðri samningar í lendingu Icesave-málsins. Og þeir samningar verða væntanlega staðfestir ef ríkisábyrgðin fær meiri hluta hér á þingi, hvenær sem það nú verður.

Samninganefnd Íslands á því miklar þakkir skildar fyrir þá vinnu sem hún lagði af mörkum í þessu og þann árangur sem hún náði í samningum við Breta og Hollendinga. Og ég held að við ættum að halda því til haga að sú vinna og sá árangur var betri en lagt var upp með og þær hugmyndir sem uppi voru hér á haustdögum í kjölfar hrunsins. Við náðum að snúa málunum til betri vegar og sú niðurstaða sem við fengum með samningnum, jafnósanngjarnt og málið í eðli sínu er, er þannig að við getum verið sátt við hana. Og við verðum að vera sátt við hana.

Eins og ég hef áður nefnt, forseti, eru þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpi fjármálaráðherra aðallega til að skerpa á sameiginlegum skilningi okkar Íslendinga á ákveðnum ákvæðum í samningunum. Það á þá einna helst við um hvað við teljum þurfa til þess að láta reyna á endurskoðunarákvæði samninganna. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að við setjum okkur ákveðin efnahagsleg viðmið varðandi greiðslu lánanna og fari greiðslur umfram þau viðmið munum við óska eftir viðræðum við viðsemjendur okkar um hvernig við leysum það mál, eins eðlilegt og getur verið. Auðvitað munum við gera það, við ætlum að setja okkur viðmið, einhver þolmörk, og förum við upp í þau munum við leita eftir viðræðum um hvernig við getum staðið við skuldbindingar okkar með öðrum hætti. Það liggur einhvern veginn á borðinu.

Með sama hætti má segja að í breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar hafi verið sett lagaleg viðmið sem fela það í sér að látið verði reyna á ýmis lagaleg ákvæði, t.d. að kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta gangi við úthlutun framar öðrum hluta krafnanna vegna sömu innstæðu. Verði niðurstaðan á þann veg áskiljum við okkur rétt til að taka málið upp, þá munum við óska eftir viðræðum. Skiljanlega munum við gera það og það látum við viðsemjendur okkar vita með þessum breytingartillögum.

Aðrar breytingar snúa síðan helst að eftirlitshlutverki Alþingis og eftirliti með fjárhag tryggingarsjóðs o.s.frv. Það segir sig sjálft, virðulegi forseti, að ef ekki er útlit fyrir að hægt sé að standa við samninga verði leitað eftir viðræðum. Þetta er sá hluti sem er í eðlilegum samskiptum aðila, hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir eða ríkið. Það gerum við öll, ef við horfum fram á að við getum ekki staðið við skuldbindingar okkar munum við leita eftir því að finna lausn á því með einhverjum hætti. En það er gott að skerpa á því með þessum hætti sem gert er með breytingum meiri hluta á frumvarpi fjármálaráðherra þannig að línurnar séu skýrar og að okkur sé öllum ljóst hvað við erum að meina.

Það er þó ekki svo að ég hafi ekki ákveðnar efasemdir um eitt og annað í þessu frumvarpi rétt eins og í samningunum sjálfum. Ég áskil mér rétt til að taka það upp á milli umræðna í fjárlaganefnd og ræða það. Ég bendi sérstaklega á þá leið sem við höfum ákveðið að velja okkur til að greiða niður skuldirnar. Mér sýnist í fljótu bragði að það gæti orðið okkur dýrt að fara þá leið sem þar um ræðir og dýrara en við ætluðum svo munar háum upphæðum. Það getur vel verið að það sé einhver misskilningur fólginn í því hjá mér og ég mun ræða það á fundum nefndarinnar milli umræðna ásamt fleirum ef mér þykir svo þurfa.

Engar þessara breytinga í frumvarpi fjármálaráðherra breyta samningunum. Samningarnir standa enn óbreyttir sem slíkir. Frumvarpið felur það í sér að við ætlum að bera ábyrgð og ábyrgjast þá upphæð sem í samningunum felst.

Margir hafa komið að því að leysa þetta mál og koma því í þann farveg sem það er í í dag og eiga allir þakkir skildar fyrir það. Allir stjórnmálaflokkar á Alþingi hafa lýst yfir stuðningi við þær breytingartillögur sem eru í frumvarpinu og ætla að styðja það, að Framsóknarflokknum undanskildum. Ég ætla þó að vona að honum renni blóðið til skyldunnar og komi að málinu að lokum þannig að samstaða verði um að afgreiða málið með þessum hætti. Það er mjög mikilvægt og sýnir styrk okkar inn á við á Alþingi og það sýnir umheiminum líka styrk. Það sendir umheiminum þau skilaboð að við ætlum að fara í þetta saman sem ein órofa heild, að við ætlum að standa saman um þetta mál. Það gefur málinu annan blæ og annað yfirbragð, bæði hér heima og erlendis en annars.

Fjölmargir aðilar utan Alþingis hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga og lagt mikið á sig til að koma skoðunum sínum á framfæri eins og ég sagði áðan. Allt það fólk á miklar þakkir skildar fyrir það. Starfsfólk Alþingis sem hefur vakið og sofið yfir þessu máli með þingmönnum og nefndarmönnum alveg til dagsins í dag, tekið allt sumarið í þetta, hefur fórnað öllum sínum tíma frá fjölskyldum og sumarfríum í þetta mál með okkur, á sömuleiðis miklar þakkir skildar.

Það virðist að mínu mati, virðulegi forseti, vera nokkuð góð samstaða. Ef marka má það sem kom út úr fundi fjárlaganefndar um síðustu helgi var nokkuð góð samstaða um að leysa þetta mál með þeim hætti sem hér um ræðir. Ég vona að ekki séu að koma sprungur í þá samstöðu og að við getum leyst þetta mál með þeim hætti sem þá var um rætt. Það er að verða samstaða á Alþingi og það er þar af leiðandi að verða meiri samstaða úti í samfélaginu um að leysa málið með þeim hætti sem hér um ræðir. Það er á okkar ábyrgð að rjúfa ekki þá samstöðu. Það er á okkar ábyrgð að hleypa þessu máli ekki aftur upp í það sem þó virtist vera á leiðinni. Við höfum gefið út þau skilaboð að lending hafi náðst. Við höfum gefið út þau skilaboð til þjóðarinnar að þessu máli sé að ljúka, að þessum átökum sé að linna, og það er ábyrgðarhluti að ætla að bregðast því.

Það er ábyrgðarhluti að ætla að bregðast fólkinu, almenningi á Íslandi, aftur með því að setja þetta mál í uppnám. Ég skora því á þingmenn stjórnarandstöðunnar, sérstaklega Framsóknarflokksins sem enn hefur ekki komið að málinu, að endurskoða hug sinn eins og svo margir aðrir gera, líta á það með gagnrýnum augum hvort sú afstaða þeirra til málsins, að vera á móti málinu, geti frekar skaðað það en bætt. Það er ekki slæm niðurstaða fyrir Ísland ef við mundum ná slíkri samstöðu við að klára þetta mál og það réttlætir að sjálfsögðu allan þann tíma sem hefur farið í það.

Það styrkir stöðu okkar og ekki veitir af, virðulegi forseti.