137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sem hér talaði, Björn Valur Gíslason, talaði mikið um að það hefði verið mikilvægt í þessu máli að fá öll sjónarmið upp á borðið, að málið hefði þurft alls konar gerjun og það hefði verið gott að öll gögn hefðu komið fram.

Nú liggur það fyrir að þann 17. júlí taldi hv. þingmaður öll gögn komin fram og taldi rétt að afgreiða málið út úr nefnd innan fárra daga. Frá þeim tíma hefur ýmislegt gerst og því leikur mér forvitni á að vita hvort hv. þingmanni þyki sú vinna sem fram hefur farið frá þeim tíma, frá 17. júlí, hafa verið til einskis eða hvort honum þyki málið hafa batnað í meðförum nefndarinnar. Ég spyr vegna þess að þrátt fyrir að þingmaðurinn tali um samstöðu var á þessum tíma alls ekki verið að reyna að fá fram neina samstöðu í þinginu. Mikilvægum gögnum var haldið frá (Forseti hringir.) þingmönnum og því þykir mér rétt að hv. þingmaður útskýri þetta fyrir mér.