137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér talaði hv. þm. Björn Valur Gíslason, varaformaður fjárlaganefndar, um breytingartillögurnar eins og hann skildi þær ekki. Það er alveg kristaltært í mínum huga að hann skilur þær ekki. Hann segir að efnahagslegu fyrirvararnir séu í raun og veru um það að menn ætli að borga til 2024 og síðan muni menn semja um annað.

Staðreyndin er hins vegar sú að þessir efnahagslegu fyrirvarar eru gríðarlega mikilvægir og gera það að verkum að ef það er enginn hagvöxtur til 2024 munum við ekki greiða neitt. Hann heldur því fram að þetta sé það sama og er í samningunum, og ekki bara það, heldur segir hann að það sé jafnvel dýrara að greiða með þessum hætti en þá upphæð sem er í samningunum. Ég vil benda hv. þingmanni á að það er engin upphæð í samningunum. Það er bara opinn tékki. Ef hann mundi kynna sér umsögn Ríkisendurskoðunar eru greiðslur þar áætlaðar frá 240 milljörðum upp í 1.036 milljarða. Það eru þessir efnahagslegu fyrirvarar (Forseti hringir.) sem gera okkur kleift að reisa hér efnahagslífið við aftur.