137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg með ólíkindum að hv. þingmaður og varaformaður fjárlaganefndar skuli ekki gera greinarmun á þessu. Það stendur klárt skrifað inni í efnahagslegu fyrirvörunum að við greiðum eftir vexti á landsframleiðslu, 6% vexti af landsframleiðslu. Standi eitthvað út af 2024 er ekki ríkisábyrgð á því. Það er líka gríðarlega mikilvægt að menn átti sig á því. Það að menn sem sitja í fjárlaganefnd hafi þann skilning sem hv. þingmaður hefur er grafalvarlegt mál. Og ef þessi skilningur hans væri réttur hefði aldrei náðst samstaða um málið og í því hefur vinna fjárlaganefndar á undanförnum vikum falist, að reyna að ná samstöðu til að gera það að verkum að við getum byggt þjóðarbúið upp aftur.

Og ekki bara það, síðan eru inni í lagalegu fyrirvörunum sem hann segir að séu nánast óbreyttir, þá nefni ég sérstaklega svokallað dæmi Ragnars Halls þar sem menn voru búnir að gera samning um það hvernig ætti að skipta út úr búinu. Því er algerlega snúið á hvolf og innstæðutryggingarsjóðnum skylt að leita réttar síns. Í upphaflega samningnum var hann búinn að semja frá sér rétt sinn. Eru þetta ekki grundvallarbreytingar, frú forseti?