137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er kominn í mótsögn við sjálfan sig. Hann sagði að samningurinn væri óbreyttur. Af hverju á þá að taka upp viðræður? Hann sagði meira að segja að samningurinn væri góður (Gripið fram í: Og glæsilegur.) og glæsilegur.

Ég er hneykslaður á hv. þingmanni og ég geri ráð fyrir að stór hluti þjóðarinnar sé það líka. Hún hefur nefnilega áhyggjur af þessum samningi. Þær breytingartillögur sem hér hafa verið gerðar og þingmenn hafa unnið að hörðum höndum undanfarnar vikur, allir sem einn — nei, ekki allir, einn var úti á sjó — allir sem einn unnu þeir hérna að breytingartillögum til að forða þessum áhættum sem þessi hræðilegi samningur hefur fyrir þjóðina. Og það hefur tekist. Það hefur tekist, frú forseti, að ná þeirri áhættu út (Gripið fram í.) með þeim breytingartillögum sem hér um ræðir. Þetta er ekki sami góði samningurinn og hv. þingmaður hefur verið að mæra og ég skora á hv. þingmann að lesa lengra en að 1. gr. ef hann hefur tíma til þess vegna fiskveiða.