137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru miklar fregnir. Hér kemur varaformaður fjárlaganefndar og blæs af alla fyrirvarana. Það er nákvæmlega það sem hv. þingmaður gerir. Hann gefur vinnunni, sem var svo sannarlega unnin án hans, falleinkunn. Hann segir líka að eftir 18. júlí hafi ekkert nýtt komið fram í málinu. Hagfræðistofnun Háskólans, það var náttúrlega eitthvert smámál, Ragnar Hall, það hefur verið eitthvað sem skipti engu máli (REÁ: Efnahagslegu fyrirvararnir.) og efnahagslegu fyrirvararnir settir hérna inn. Þetta er allt sem skiptir engu máli hjá hv. þingmanni. (Gripið fram í: Lee Buchheit.) Lee Buchheit, það bara skiptir ekki máli.

Þetta er nokkuð athyglisvert því að hér talaði hv. þingmaður um þverpólitíska samstöðu og skilaboð til umheimsins. Og hér er einn af forustumönnum Vinstri grænna að tala. Ég vil bara fá það staðfest hjá honum (Forseti hringir.) það sem hann sagði áðan að allt þetta sem hér var nefnt skipti engu máli.