137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:34]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rangt eftir mér haft að ég hafi sagt að þetta skipti engu máli. Ég sagði að hafi þessi tími orðið til þess að samstaða hafi náðst um málið á Alþingi hafi honum verið vel varið. (GÞÞ: … ekkert eftir …) Já, ég held því fram að …

(Forseti (ÁRJ): Ekki samtöl í sal.)

Ég held því fram að engin ný rök, virðulegi forseti, hafi komið fram sem breyttu málinu frá þessum tíma. Ragnars Halls-ákvæðið sem hv. þingmaður nefndi var komið fyrr, það var komið í umræðu fyrr og önnur atriði sem voru hér rædd. Ég hef ekki séð ný atriði koma fram í þessu máli á þessum tíma sem hafa breytt málinu svo heitið getur.

Ég er ekki að gera lítið úr þeim breytingartillögum sem gerðar eru á frumvarpinu, ég tók það sérstaklega fram. Ég tók sérstaklega fram að það væri gott fyrir Alþingi, það væri gott fyrir okkur öll (Gripið fram í.) að skýra málið með þessum hætti, draga línur, setja sjálfum okkur einhver þolmörk þannig að við gerum okkur grein fyrir því hvernig við eigum að bregðast við ef við förum út í þau.