137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð dálítið fyrir vonbrigðum með hv. þingmann, af því að ég hef það mikla trú á hv. þingmanni, þegar hún talar um heilaþvott. Það eru ekki rök í málinu, frú forseti. Ég er ekkert að heilaþvo sjálfan mig. Hvað þýðir það eiginlega að einhver heilaþvoi sjálfan sig? Að hann fallist á eigin rök eða hvað? Ég frábið mér svona umræðu og ég ætla að vona að þingmaðurinn noti það ekki aftur.

Varðandi það að við treystum á að Bretar og Hollendingar sýni sanngirni, ég er ekkert að treysta á það neitt, ég er alls ekkert að treysta á það. En Bretar og Hollendingar þurfa samstöðu um alla Evrópu, þeir þurfa samstöðu til þess að geta kúgað Íslendinga áfram eins og þeir hafa reynt að gera. Ef þeir ekki ná samstöðu, t.d. Norðmanna, sem eru mjög veigamiklir, Svía og allra Norðurlandaþjóðanna og Þjóðverja og Frakka, ef þeir ná ekki samstöðu þessara þjóða þá ná þeir engu fram og þetta vita þeir. Þess vegna lagði ég til í gær og spurði hérna að því hvort menn gætu ekki frestað umræðu milli 2. og 3. umræðu, og ég er enn að reyna að vona að menn geri það af því að ég óttast það nefnilega að Bretar og Hollendingar muni ekki samþykkja þetta, að við frestum umræðu milli 2. og 3. umræðu í tvær, þrjár vikur og sendum alla þingmenn um alla Evrópu, til Portúgals, til Grikklands, til Albaníu, til Lettlands og Litháens, Norðurlandanna, til að kynna okkar málstað áður en ákvörðunin fellur. Þetta tel ég vera mjög mikilvægt af því að ég óttast það að um leið og við erum búin að samþykkja fari menn að gefa yfirlýsingar í Bretlandi og Hollandi, sem þeir mundu hugsanlega ekki gefa ef þeir vissu betur og væru betur upplýstir um stöðu Íslands.

Ég er að vona að menn fallist á þetta. Ég veit að það er margt sem liggur á og mikið sem þarf að gera, en ég vona að menn fari þá leið (Forseti hringir.) að stunda ákveðið upplýsinga- og markaðsstarf fyrir þetta mjög veigamikla mál.