137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Atli Gíslason hefur þegar tjáð sig um grein 6.5 en mig langar til að koma inn á þá túlkun sem ég legg í greinina og er mjög mikilvæg. Grein 6.5 kemur í veg fyrir möguleika íslenska ríkisins á að setja fyrirvarana því aðgerðir sem draga úr skilyrðislausri ábyrgð ríkisins hafa ekki áhrif á skuldbindingar ríkisins eins og þær liggja í samningnum þannig að það sé alveg klárt. Þetta þarf að skoða í fjárlaganefnd þegar málið fer aftur inn eftir 2. umr.

Þá komum við að grein 13.1.1 í breska samningnum og grein 12.1 í þeim hollenska þar sem segir, með leyfi forseta:

„Aðeins er heimilt að gera breytingar á samningi þessum, bæta við hann eða falla frá honum með skriflegu samkomulagi milli samningsaðila.“

Þarna er þetta skýrt ákvæði. Ef fyrirvararnir rúmast ekki innan samningsins þá falla þeir úr gildi. Þarna hef ég bent á tvær greinar í samningunum sem raunverulega gera fyrirvarana að engu. Hver er skoðun þingmannsins á þessari túlkun?