137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er afar einkennilegt svar því eins og hv. þingmaður og lögmaður Atli Gíslason veit þá er ákvæði í Icesave-samningunum sem er á þá leið að samningarnir taki ekki gildi fyrr en ríkisábyrgð er veitt. Þess vegna lít ég á þetta svar þingmannsins sem útúrsnúning og svo virðist sem einhverjir þingmenn Vinstri grænna séu komnir á flótta í þessu máli því það kom fram í máli þingmanns Vinstri grænna í morgun að hann liti svo á að samningurinn stæði eins og hann væri og raunverulega væri fyrirvarinn óþarfur. Enda þegar maður gluggar í þau lögfræðilegu skjöl sem liggja að baki þessum samningi þá benda öll rök til þess að ekki sé hægt að gera fyrirvara við samninginn því eins og ég benti á í ræðu í gær að um leið og komin er ríkisábyrgð á Icesave-samningana þá falla niður íslensk lög því um þá gilda bresk lög og sé mál höfðað út af samningunum þá er það í breskri lögsögu og fyrir breskum dómstólum.