137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur kærlega fyrir ræðu hennar og er ég í raun nánast sammála hverju einasta orði sem hún sagði varðandi þessa skelfilegu hörmung sem við stöndum frammi fyrir sem kallast Icesave-reikningar.

Mig langar að spyrja hana aðeins betur út í grein 6 í samningunum. Eftir því sem maður les grein 6 oftar, 6. kafla, sem heitir Ábyrgð og skaðleysi, er sama hvar borið er niður, þar er alls staðar verið að skerða rétt okkar sem þjóðar og færa Bretum og Hollendingum ótakmarkað vald til að níða okkur niður. Að mínu mati, og það er mín túlkun, er grein 6.5, Fallið frá vörnum, á þann hátt að það sé ekki hægt að setja fyrirvara sem taka gildi. Það er mjög skýrt og í raun og veru gengur það sem stendur í samningnum lengra en nokkurn tíma fyrirvararnir þannig að í fyrsta lagi getum við ekki sett þessa fyrirvara. Svo má í öðru lagi ekki breyta samningnum. Mig langar því til að spyrja í fyrsta lagi hv. þingmann hvort hún sé ekki alveg sammála því að þessi fyrirvaravinna sé komin á mjög grátt svæði og raunar út í horn hjá fjárlaganefnd því það stendur skýrt í samningnum að engir fyrirvarar megi koma til eða ekki megi breyta samningnum.

Við getum líka talað um grein 6.7, Frestun réttinda íslenska ríkisins. Hér er komin tillaga um að við setjum þak á greiðslurnar. Grein 6.7 ýtir þeirri hugmynd út af borðinu. Þingmenn verða að nota helgina í það að stúdera grein 6 í hollenska og breska samningnum til að sjá hvað réttindi okkar eru fyrir borð borin og það er alveg sama hvað fer inn í þessa fyrirvara. Í fyrsta lagi tekur samningurinn ekki til þess þegar þeir taka gildi. Það er alveg sama hvað við mundum setja inn í þá. Samningurinn ryður öllum fyrirvörum út af borðinu.