137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:15]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan erum við í raun ekki að ræða samninginn sem slíkan heldur erum við að ræða þá ríkisábyrgð sem farið er fram á að fjármálaráðherra fái til þess að skilyrða þá skuldbindingu sem felst í þessum samningi um greiðslur íslensku þjóðarinnar til handa Bretum og Hollendingum. Þessir samningar sem gerðir voru og hafa verið undirritaðir kalla á ríkisábyrgð sem menn eru ekki sammála um samkvæmt því brogaða regluverki sem hér er farið eftir að eigi að vera fyrir hendi. Íslenska samninganefndin kom hins vegar heim með þetta með þeim hætti að kalla skyldi eftir ríkisábyrgð. Ríkisstjórnin ákveður að gera það. Það er hins vegar Alþingi Íslendinga sem ákveður hvort ríkisábyrgðin verður veitt, það er Alþingi Íslendinga sem ákveður að setja fyrirvara sem það telur að hagnist íslenskri þjóð.

Ég segi eins og hv. þm. Ólöf Nordal sagði hér í gær: Það er Breta og Hollendinga að taka við því sem Alþingi Íslendinga ákveður með já-i eða nei-i. Ég segi eins og hv. þm. Ólöf Nordal: Verði þeim að góðu. Annaðhvort taka þeir því sem Alþingi Íslendinga hefur ákveðið, sem er löggjafarsamkoma þjóðarinnar, sem er æðri en framkvæmdarvaldið og þeir sem undirrituðu samningana, Alþingi Íslendinga segir eitt: Annaðhvort taka þessar þjóðir við því eða ekki. Verði þeim að góðu ef þeir gera það ekki því að það er ekki hagur þeirra sem (Forseti hringir.) þeir telja að þeir hafi verið að berjast fyrir.