137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:20]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég deildi ekki þessum rökum ríkislögmanns að lögin væru opin með þeim hætti og málið var svo gríðarlega þýðingarmikið fyrir okkur Íslendinga að jafnvel þótt svo væri hefði ég talið rétt að láta reyna á það, sérstaklega út af því að ég mat það svo að kostnaður við það hefði ekki orðið yfirgengilegur.

Eftir á að hyggja, það er gott að heyra hv. þingmann segja að hún hafi skipt um skoðun í þessu, þetta var mín staðfasta skoðun frá upphafi. Það hefði líka leitt til eins, jafnvel þó að við hefðum ekki náð fram kærunni, kröfum okkar í kærumálinu, það hefði leitt til þess að það hefði upplýst til fulls, þess hefði málflytjandi íslenska ríkisins væntanlega krafist, það hefði upplýst til fulls hver rökin voru á bak við þessa ákvörðun og hvaða gögn, hvaða skjöl lágu að baki þessari ákvörðun, hvað var að gerast í kringum 6. október og dagana á undan sem enn er ekki fyllilega upplýst en væntanlega kemur fram í þeirri rannsókn sem nú stendur yfir á þessu bankahruni.