137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:36]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ræðu hennar. Ég vil fyrst segja það að þegar málið var til afgreiðslu á vettvangi fjárlaganefndar var ég starfandi varaformaður nefndarinnar og var talsmaður flokks míns í málinu og þingflokkurinn ákvað á fundi hér í vikunni að ég yrði talsmaður í þessu máli í þessari umræðu. Ég og hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður nefndarinnar, gerðum samkomulag fyrir hönd okkar flokka við stjórnarandstöðuflokkana, Sjálfstæðisflokk og Borgarahreyfingu, um afgreiðslu málsins. Það samkomulag stendur af okkar hálfu. Ég er vanur að standa við það samkomulag og standa með því samkomulagi sem ég geri við aðra og ég vona að það sé ekki að vænta breytingar á þeirri afstöðu frá öðrum.

Ég vil þó minnast hér á nokkur atriði sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni. Í fyrsta lagi nefndi hún leyndina yfir samningnum. Mér þykir mjög miður að þessu sé ítrekað haldið fram. Það var aldrei ætlun ríkisstjórnarinnar að halda samningunum leyndum og það hefur margítrekað komið fram.

Hún nefndi hér slæleg vinnubrögð og m.a. skipan samninganefndar og að ekki hefði verið þverpólitísk samstaða um það. Ég tek undir að það hafa mörg mistök verið gerð í vinnubrögðum þessa máls. Ég tel líka að það hafi verið gerð mistök haustið 2008 þegar þáverandi ríkisstjórn sló á hendur þáverandi stjórnarandstöðu um þverpólitíska samstöðu. Það hafa örugglega bæði sú ríkisstjórn og sú sem nú situr gert mistök í þessu máli en við eigum ekki að festast í því.

Síðan hefur hér verið talað um viðbrögð erlendra aðila. Það var rætt talsvert á fundi utanríkismálanefndar núna í vikunni þar sem fjármálaráðherra og utanríkisráðherra komu og gerðu grein fyrir því sem hefur verið gert nú þegar í því sambandi þannig að það var gagnlegt að fá upplýsingar um það og fjölmörg sjónarmið komu fram frá nefndarmönnum sem verða veganesti inn í framhaldið.

Ég vil einungis segja vegna ummæla sem hér hafa fallið frá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni (Forseti hringir.) að ég tek ekki undir þær skýringar eða sjónarmið sem hann kom fram með í ræðu fyrr í dag. Þeim verður hann að standa fyrir, (Forseti hringir.) en ég er ekki sömu skoðunar.