137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að ég sé ekki að misskilja hv. þingmann að hann sé að gera eitthvað lítið úr því að þessar tillögur komi m.a. frá Indefence-hópnum varðandi það að tryggja fyrirvarana. Ég veit að hann meinti það ekki þannig en ég vil skilja hann á þann veg og á þann hátt að við séum sammála um að við viljum eyða allri óvissu um það hvort fyrirvararnir haldi eða ekki, þeir verði að vera óaðskiljanlegur hluti samþykktar okkar þingmanna á Alþingi, að ríkisábyrgðin gildi ekki nema fyrirvararnir gildi þannig að það sé tryggt. Ég verð að segja í ljósi allra þeirra gagna sem nú liggja fyrir og það sem verið er að draga fram núna, m.a. lögfræðiálit frá breskum lögfræðingi, þá verði fjárlaganefnd að hnykkja enn frekar á þessu atriði. Það má ekki vera ein einasta óvissa um það hvernig þingið ætlar að afgreiða þetta mál. Þá er ekki sátt í samfélaginu um þetta mál ef hún næst einhvern tíma. Við þingmenn verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að reyna að ná þeirri sátt og þeirri skynsemi sem þarf í málið. Það var að mínu mati ekki lagt nægilega vel af stað með málið, ekki á nægilega skynsamlegan hátt. Með þessu er ég ekki að kasta neinni rýrð á þá samningamenn sem voru fyrir Íslands hönd. Þeir fengu bara ekki réttu fyrirmælin og menn komu heim með vonda samninga. Það er mín skoðun. Þess vegna erum við búin að vera hér í margar vikur í sumar til að reyna að lappa upp á þessa samninga sem voru vondir. Þess vegna verðum við þegar við setjum fram okkar fyrirvara, okkar breytingar að vera með það alveg á hreinu að við séum að efla og bæta stöðu Íslands og gæta íslenskra hagsmuna á allan hátt.