137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur kærlega fyrir ræðuna, hún fór mjög vel yfir skoðanir sínar á þessu máli. Mig langar samt sem áður til að fá hana til þess að útskýra eitt aðeins betur: Er það ekki rétt skilið hjá mér að hv. þingmaður sé algjörlega ósammála túlkun hv. þingmanns Björns Vals Gíslasonar á því að samningunum hafi ekki verið breytt með nokkrum einasta hætti og, með leyfi forseta, að: „engar þær breytingar sem lagt er til að verði gerðar á frumvarpinu hreyfa við samningnum, þær breyta ekki samningnum.“

Þetta er sem sagt haft orðrétt eftir hv. þingmanni í ræðu hans frá í morgun. Ég vildi bara fá það algjörlega á hreint að hv. þingmaður sé ekki að taka undir orð Björns Vals varðandi þetta. Og þar sem hv. þingmaður hefur heilmikla lagakunnáttu sjálf mundi ég líka gjarnan vilja heyra meira um skoðanir hennar varðandi þetta lagalega gildi fyrirvaranna, vegna þess að hún talaði um að hún vildi gjarnan að fjárlaganefnd skoðaði þetta nánar. Ég mundi hins vegar gjarnan vilja heyra það ef hún sjálf ætti að skila inn lögfræðiáliti um þetta hvort hún telji að þessir fyrirvarar standist miðað við þær upplýsingar sem hún hefur í dag.