137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:16]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það algjörlega skýrt fram að ég er alls ekki sammála hv. þm. Birni Vali Gíslasyni (BVG: Þú ert oft sammála mér.) um það sem fram kom í ræðu hans, þ.e. að fyrirvararnir hefðu enga þýðingu varðandi það hvernig samningarnir væru túlkaðir og hvert gildi þeirra væri, þannig að það sé algjörlega á hreinu. Ég held að það hljóti að hafa skilist á ræðu minni áðan að mér var stórlega misboðið af þessum málflutningi hv. varaformanns fjárlaganefndar eftir allt sem á undan er gengið hér á þinginu. (Gripið fram í.) Stundum er einfaldlega betra að hugsa meira og segja minna.

Varðandi sérfræðiþekkingu mína sem lögfræðings í þessu máli er þetta einfaldlega frekar stórt mál og þeir lögfræðingar sem eru að skoða gildi fyrirvaranna hafa kannski ekki mörg fordæmi til að styðjast við en ég tel að það sé algjörlega ljóst að viðsemjendur okkar þyrftu að minnsta kosti að samþykkja og leggja blessun sína á þessa fyrirvara til þess að þeir séu bindandi. Ég tel það. Í fljóti bragði tel ég það. Þetta er samningur milli tveggja aðila, síðan kemur ríkisábyrgðin og í samningnum stendur ,,og eða ef“ — „og eða þegar“ ríkisábyrgðin verður samþykkt á Alþingi tekur samningurinn gildi, þannig að þetta er augljóst. Þetta varðar þessa aðila miklu og þeir hafa að sjálfsögðu skoðun á því, það hlýtur að vera, hvað Alþingi er að gera og það varðar hagsmuni þeirra gríðarlegu miklu, sérstaklega efnahagslegu fyrirvararnir. Þeir koma til með að hafa grundvallarafleiðingar á það hvaða heimtur þeir fá þegar fer að reyna á ríkisábyrgðina.

Ég tel því a.m.k. að þegar Alþingi hefur afgreitt þetta hér hafi þeir öll úrræði til þess að hafna samningnum.