137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Erindið er, eins og hjá hv. þingmanni Eygló Harðardóttur hérna áðan, að spyrja út í áhrifin af þessari sprengju sem varaformaður fjárlaganefndar varpaði í þingsal í morgun. Getur hv. þingmaður tekið undir það með mér að það eitt að varaformaður fjárlaganefndar skuli tala með þessum hætti skapi töluverða óvissu um stöðu málsins, svo ekki sé minnst á þegar hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra tala á sömu nótum? Gefur það ekki fullt tilefni til þess að við förum mjög vandlega yfir málið í heild og komumst til botns í því? Getur þá hv. þingmaður tekið undir að það ætti að vera krafa af hálfu þingsins að a.m.k. einn breskur lögmaður með þekkingu á enskum lögum yrði fenginn til þess að fara yfir málið út frá hagsmunum Íslendinga?