137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er spurð að því hvort mér hafi þótt nefndin fara geyst í það að taka málið út úr nefnd. Ég tel að það hafi í rauninni ekki verið hægt að koma málinu mikið lengra í nefndinni á því stigi. Ég á ekki sæti sjálf í fjárlaganefnd og ég sé í rauninni ekki að þau sjónarmið sem hafa komið fram í umræðunni í dag og í gær hefðu endilega komið fram í nefndinni, vegna þess að það eru ekki nefndarmenn sem eru að gera ágreining hér um það hvernig eigi að skilja fyrirvarana o.s.frv., það eru aðrir þingmenn. (Gripið fram í.) Ja, hv. þingmenn vita að varaformaður fjárlaganefndar var ekki mjög mikið viðlátinn þessa meðferð málsins þannig því sé haldið til haga (REÁ: Hann var á sjónum.)

Ég fagna því að fá að leggja orð í belg hér á þessu stigi málsins og ég tel í rauninni að það sé nauðsynlegt, en vil jafnframt ítreka þá afstöðu mína að nú fer málið aftur inn í nefnd og verður að fá umfjöllun þar. Ég trúi ekki öðru en að það sé að fara að gerast vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að þeim spurningum sem hér er haldið á lofti sé svarað í nefndinni eða þeim sé a.m.k. velt upp.

Varðandi breytingartillögu framsóknarmanna um vextina hef ég ekki tekið afstöðu til þess og gef hv. þingmanni hér með skotleyfi á það að sannfæra mig um ágæti tillögunnar. Í mínum eyrum hljómar hún ágætlega, hún gerir það. En við vitum það öll undir hvers lags álagi þingstörfin hafa verið í þessari viku. Umræður hófust hér í gærmorgun klukkan níu og þá var dreift í fyrsta skipti nefndaráliti 1. minni hluta og 2. minni hluta ásamt öllum fylgiskjölum sem og breytingartillögum þannig að ég held að ég sé að verða komin að þeim punkti nú í yfirlestri mínum að ég fari að leggjast yfir breytingartillögur framsóknarmanna og hvet þá einfaldlega til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við þingmenn.