137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum við 2. umr. frumvarp ríkisstjórnarinnar um heimild til fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, svokallað Icesave-mál. Þessi umræða, sem hefur staðið í tvo daga, allan gærdag fram að miðnætti og svo núna í dag, hefur um margt verið ágæt og ég verð að segja að það er margt sem hefur komið fram sem gerir það að verkum að málið þarf að vinnast betur og því er ég ánægð með að tekin hafi verið um það ákvörðun að taka málið til nefndar á milli umræðna vegna þess að það eru fjölmörg atriði sem hafa verið rædd sem þarf að taka til frekari skoðunar.

Það sem er að gerast í þessu máli er mjög einfalt. Ríkisstjórnin kom heim með samning sem hefur verið lýst með ýmsum orðum. Áður en hann var samþykktur var boðað að þetta væri glæsileg niðurstaða. Síðan varð niðurstaðan bærileg og svo þegar samningurinn var kynntur og fjármálaráðherra stóð hér við 1. umr. þá snerist þetta um að þetta var eini samningurinn sem mögulegur var í stöðunni og það átti reyndar allt að vera okkur sjálfstæðismönnum að kenna en það er önnur saga.

Það sem er að gerast núna, eftir mjög ítarlega og vandaða vinnu fjárlaganefndar í allt sumar frá því í júní, er að ríkisstjórnin er gerð afturreka með málið. Það er búið að kollvarpa málinu. Í grunninn er þetta nýr samningur sem við erum að fjalla um, gagntilboð til Breta og Hollendinga sem þeir verða að taka afstöðu til. Gleymum því ekki að það sem er búið að gerast í allt sumar er að ríkisstjórnin eða reyndar hluti ríkisstjórnarinnar er búinn að fullvissa okkur hér, tala fyrir því, berjast fyrir því við okkur og við íslensku þjóðina í fjölmiðlum um það að þessi samningur sem fyrir liggur sé mjög góður, að þessi samningur sé þannig að það þurfi enga fyrirvara að setja við hann, þetta sé eitthvað sem íslenska þjóðin geti alveg staðið undir og að þetta sé einfaldlega málið sem við eigum að kvitta upp á. Samfylkingin hefur verið algjörlega sammála í þessu og hefur ekki mátt á það minnast við þá að breyta samningnum með einhverjum hætti. Vinstri grænir eru klofnir þannig að ríkisstjórnin er klofin og það hefur reyndar komið í ljós að það var greinilega ekki ríkisstjórnarsamþykkt fyrir þessu stóra máli sem er með ólíkindum. Að svona stór samningur sem ríkisstjórnin skrifar undir, fjármálaráðherra skrifar undir fyrir hönd íslenska ríkisins, að ekki sé ríkisstjórnarsamþykkt fyrir honum. Ég held að þetta hljóti að vera nýbreytni í íslenskri stjórnsýslu og það hefur náttúrlega komið í ljós að vegna þess að ekki var ríkisstjórnarsamþykkt fyrir þessum samningi, þá hefur ríkisstjórnin verið í bölvuðum vandræðum með þetta í allt sumar. Því var það þannig að fjárlaganefnd stóð frammi fyrir nokkrum valkostum og það hefur verið farið ítarlega yfir það hér og í lokin náðist um það samstaða, það var ekki ríkisstjórnin í heild sinni sem fékk stjórnarandstöðuna með sér í lið til að ná einhverri samstöðu um breytingar, nei, nei, það var hluti ríkisstjórnarinnar, andófsmennirnir í ríkisstjórninni sem náðu samstöðu með stjórnarandstöðunni til að sannfæra Samfylkinguna og hluta Vinstri grænna um að þetta væri leiðin til að bæta þessa samninga, gera þá þannig úr garði að íslenska þjóðin gæti staðið undir þessu. Efnahagslegu fyrirvararnir eru að sjálfsögðu það allra mikilvægasta í því.

En eins og umræðan í dag hefur berlega sýnt og eins og umræðan í gær hefur líka sýnt er ekki algjörlega einn skilningur á því hvað það þýðir að gera þessa fyrirvara við samninginn. Það eru nokkur atriði í þessu máli sem ég óttast um. Og þrátt fyrir það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lýst yfir stuðningi við breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar, og ég vil ítreka það að Sjálfstæðisflokkurinn tók málið ekki út úr fjárlaganefnd heldur var það meiri hluti ríkisstjórnarinnar og Borgarahreyfingarinnar sem tók málið út og skrifaði upp á álitið, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst því yfir að hann muni styðja þær breytingartillögur sem meiri hlutinn lagði til, enda voru þær breytingartillögur tillögur okkar sjálfstæðismanna sem við höfum barist fyrir í gegnum þetta ferli. En vegna ákveðinnar óvissu sem er nú uppi og kom m.a. fram í máli varaformanns fjárlaganefndar í morgun þá óttast ég að ríkisstjórnin geti klúðrað þessu máli aftur. Ég segi aftur vegna þess að það er ekki í fyrsta sinn. Ég óttast að fyrirvararnir haldi ekki af einhverjum ástæðum.

Mér er sagt af lögfróðara fólki en ég er að þetta eigi að vera skothelt og á bls. 19 í minnihlutaáliti okkar sjálfstæðismanna er rætt um fyrirvarana og ég vil fá að lesa, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn hefur valið þann kost að samþykkja ríkisábyrgð með ákveðnum fyrirvörum sem að mati 1. minni hluta fela í sér verulegar breytingar á Icesave-samningunum. Nauðsynlegt er að undirstrika að fyrirvarar eru óaðskiljanlegur hluti samþykktar Alþingis á ríkisábyrgðinni til að fyrirbyggja að haldið sé fram að ríkisábyrgðin gildi en fyrirvararnir ekki.“

Gott og vel. Þetta er okkar skilningur. Þarna erum við algerlega gallhörð á því að fyrirvararnir séu hluti samningsins og þetta sé nýr og breyttur samningur. Ég óttast að Bretar og Hollendingar geti af einhverjum ástæðum snúið málum þannig að þeir fallist ekki á fyrirvarana og láti samninginn, þennan ömurlega samning sem samninganefndin kom heim með og fjármálaráðherra ber ábyrgð á, standa. Það er verkefni dagsins í dag að koma í veg fyrir að þessi óvissa verði enn þá til staðar þegar við göngum til atkvæða um þetta mál. Óvissan er fyrst og síðast vegna þess hvernig ríkisstjórnin hefur talað sjálf. Ríkisstjórnin heldur því fram að þetta séu ekki nýir samningar. Hæstv. forsætisráðherra talar um fyrirvarana sem varnagla. Í mínum huga er það ekki nógu sterkt orð yfir þessa fyrirvara að kalla þá varnagla. Varnaglar eru í mínum huga eitthvað allt annað.

Hæstv. utanríkisráðherra segir að það þurfi skapandi hugsun til að koma því þannig fyrir að fyrirvararnir rúmist inni í samningnum. Hæstv. fjármálaráðherra var hálfpirraður á mér í gær í umræðunni þegar ég spurði hann hvernig hann gæti haldið því fram að þetta sé sami samningurinn þegar fyrirvararnir kollvarpa samningnum í öllum aðalatriðum. Þá varð hann hálfpirraður á mér og sagði það ábyrgðarhlut að tala þannig að viðsemjendur okkar mundu ekki taka því þannig að við værum að brjóta samninginn. En, frú forseti, ég tek undir með formanni Sjálfstæðisflokksins að ég held að það sé bara mjög gott að viðsemjendur okkar heyri það að við séum ekki að samþykkja þennan samning eins og hann er vegna þess að ef þeir af einhverjum ástæðum hafa þá skoðun og þá túlkun að við séum að samþykkja samninginn óbreyttan þá erum við Íslendingar í mjög vondum málum og það er eitthvað sem ég get ekki fallist á þannig að þetta þarf algerlega að komast á hreint. Ég vil benda á álit þjóðréttarfræðings utanríkisráðuneytisins sem sendi fjárlaganefnd minnisblað fyrr í dag þar sem hann í rauninni áréttar þetta sjónarmið. Hann segir, með leyfi forseta:

„Sé fyrirvaraleiðin farin eins og nú er gert ráð fyrir er nauðsynlegt að fyrir liggi að fyrirvararnir séu óaðskiljanlegur hluti samþykktar Alþingis á ríkisábyrgðinni til að fyrirbyggja að hinir samningsaðilarnir geti haldið því fram ríkisábyrgðin gildi en fyrirvararnir ekki. Brýnt er jafnframt að samþykki hinna samningsaðilanna á fyrirvörunum liggi með einum eða öðrum hætti fyrir áður en Icesave-samningarnir öðlast gildi til þess að enginn vafi leiki á um réttarstöðuna.“

Þetta er nákvæmlega það sem skiptir öllu máli hér og það er þetta sem hæstv. fjármálaráðherra kallaði í andsvari við mig í gær að Alþingi fari að standa í samningaviðræðum við Hollendinga og Breta. Hann gerði lítið úr því, sagði að við þyrftum að samþykkja þessa fyrirvara frá okkar hendi og síðan væri það þeirra að meta það hvort þeir teldu að þeir rúmuðust innan samnings eða utan. En þetta er bara hlutur sem við verðum að fá á hreint eins og þjóðréttarfræðingur utanríkisráðuneytisins bendir á.

Ég vil líka benda á Indefence-hópurinn hefur áhyggjur af því sama og við sjálfstæðismenn, þ.e. mismunandi túlkun manna á þessu og hvort fyrirvararnir gildi ekki örugglega vegna þess að það má ekki gerast að þessir samningar verði samþykktir óbreyttir. Það má ekki gerast. Og það er ekki það sem við sjálfstæðismenn vorum að taka þátt í að ná samstöðu um innan fjárlaganefndar. Indefence bendir á að það sé einföld leið til að tryggja það í lagatextanum sjálfum að þar komi fram að lögin taki ekki gildi fyrr en Bretar og Hollendingar hafi viðurkennt fyrirvarana. Þá spyr ég: Hæstv. forsætisráðherra, og það er alveg makalaust að alltaf í þessari blessuðu umræðu eru fulltrúar stjórnarflokkanna hvergi sjáanlegir. Ég sé þrjá ágæta þingmenn stjórnarandstöðunnar sem mér þætti mjög gaman að eiga orðastað við og ég geri það mjög reglulega. Ég kalla eftir því að það fólk sem ber ábyrgð á þessum gjörningi sé hér og sýni okkur þingmönnum þá virðingu að vera í salnum. Og fyrst ég er farin að kalla eftir fólki vil ég benda á að nú við 2. umr. þessa máls er enn á ný fjarstaddur fyrrverandi bankamálaráðherra, hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra, núverandi hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, sem ég kallaði eftir við 1. umr. að kæmi hér og setti sig á mælendaskrá og talaði í þessari umræðu vegna þess að það er með ólíkindum að hér hefur verið talað um það hver beri ábyrgð á hverju, hver gerði hvað og hvenær og þarna erum við með mann sem var þátttakandi í atburðarásinni frá fyrstu hendi. Hann var þátttakandi í henni allri og við þingmenn eigum kröfu á að þingmaðurinn komi hingað, flytji ræðu, skýri sitt sjónarmið hver sagði hvað, hvenær og við hvern og hver ber ábyrgð á hverju og gefi okkur færi á að ræða við hann í þingsal fyrir framan alþjóð um þessi mál. Þetta er með ólíkindum. Ég skoðaði mælendaskrána áður en ég kom í stólinn og hv. þingmaður er ekki enn þá kominn á mælendaskrá sem mér finnst hreinlega með ólíkindum. Ég kalla eftir því að frú forseti geri ráðstafanir til að koma þeim skilaboðum til forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar og hv. þingmanns að ég óski eftir því að þau sitji í þingsal og eigi við okkur skoðanaskipti undir þessari umræðu.

Það sem ég var farin að segja áðan þegar ég afvegaleiddist um stund var það að hæstv. forsætisráðherra sagði hér í gær að hafnar væru viðræður við Breta og Hollendinga á embættismannastigi um fyrirvarana, það væri verið að þýða þá og hafin væru einhver samtöl og samskipti á milli embættismanna um þetta mál þannig að það væru byrjaðar einhverjar þreifingar við viðsemjendur okkar. Ég fer fram á það og óska eftir því að fjárlaganefnd Alþingis fái þau samskipti sem komin eru. Ég trúi því ekki að þau samskipti um þetta mikilvæga mál séu einungis símleiðis, ég trúi ekki öðru en að á milli hafi gengið einhvers konar bréfaskriftir, tölvupóstar, bréf eða einhvers konar samskipti. Ef það eru símtöl hlýtur verklagið að vera þannig að þau séu tekin upp og skrifuð upp. Ég tel að það sé algjörlega nauðsynlegt að fjárlaganefnd Alþingis fái öll þessi samskipti núna þegar málið verður tekið inn til nefndarinnar á milli umræðna. Ég geri ekki lítið úr því að þetta er eflaust mjög viðkvæmt allt saman og þarna eru upplýsingar sem eiga ekkert erindi út á þessu stigi. Og ég veit að allir nefndarmenn í fjárlaganefnd mundu glaðir skrifa undir hvers konar trúnaðaryfirlýsingu um þessi mál til þess að við þingmenn getum verið algjörlega fullviss um það að þegar við greiðum um þetta frumvarp atkvæði haldi þeir fyrirvarar sem við erum að setja hér sem algjört skilyrði. Þetta er of mikilvægt mál til þess að um það sé einhver lagaleg óvissa.

Af hverju skyldum við ekki treysta hæstv. ríkisstjórn til þess að taka greinilegum fyrirmælum Alþingis og fara með þau til útlanda eftir að við værum búin að samþykkja þetta og tala máli okkar við stjórnvöld í þeim ríkjum og berjast fyrir okkur? Af hverju ættum við ekki að trúa því þegar við erum greinilega að búa til mjög þrönga, harða forskrift fyrir ríkisstjórnina í þessu máli, við erum að veita þessa ríkisábyrgð með algjörlega kristaltærum skilyrðum? Það er vegna þess — og nú tala ég fyrir mig — að ég treysti ekki þessari ríkisstjórn til þess. Af hverju treysti ég ríkisstjórninni ekki til að gera það? Vegna þess að þegar fjármálaráðherra skrifaði undir samninginn fór hann ekki eftir forskrift Alþingis sem þá lá fyrir í þingsályktun frá því í desember í fyrra þar sem sagt var að það ætti að setja ferlið í pólitískan farveg og það ætti að reyna að leita samninga en jafnframt voru klár fyrirmæli frá Alþingi í þessari þingsályktun að það væri ekki sama hvaða samning væri komið með heim. Það var klárt að ef sú staða kæmi upp að samningar sem við gætum sætt okkur við mundu ekki nást yrði bara að taka aðra ákvörðun þegar við værum komin að þeim punkti.

Ríkisstjórnin fór ekki eftir þessari forskrift Alþingis og þess vegna treysti ég henni ekki, þó svo að fyrirvararnir séu svona skýrt afmarkaðir, án þess að við séum með eitthvað í hendi frá viðsemjendum okkar um það hvernig þeir túlka þetta — og sérstaklega ekki eftir ræðu hv. þingmanns í morgun, Björns Vals Gíslasonar, varaformanns fjárlaganefndar, sem hafði greinilega allt aðra túlkun. Og jafnvel þótt starfandi formaður fjárlaganefndar og formaður fjárlaganefndar og jafnvel einhverjir fleiri sem ég hef ekki heyrt í hérna í umræðunni í dag séu búnir að koma hér trekk í trekk og lýsa ummæli þingmannsins algjörlega út úr kortinu, þá treysti ég því ekki og vil heyra það frá Bretum og Hollendingum sjálfum. Ég held að við þingmenn eigum einfaldlega heimtingu á því.

Þess vegna segi ég það að við þurfum að fá þessi samskipti sem komin eru, við þurfum að fá þá aðila sem hafa átt í þessum samskiptum fyrir fjárlaganefnd til að nefndarmenn geti spurt og fengið það á hreint hvernig þessi samskipti hafa átt sér stað.

Virðulegi forseti. Þessi tími líður ótrúlega hratt. Það var margt sem ég ætlaði að ræða hér sem verður að bíða betri tíma, en ég ítreka mikilvægi þess að þessi atriði séu skýrð vegna þess að við getum alveg gert okkur í hugarlund hvernig menn ætla að kynna samningana út á við, þessir sömu ríkisstjórnarflokkar sem fóru af stað og náðu glæsilegu niðurstöðunni. Hvernig ætla þeir að kynna hana? Ætla þeir að kynna hana eins og þeir tala hér, að þetta sé óbreyttur samningur, að þetta séu einhverjir minni háttar fyrirvarar? Það eina sem við þurfum sé skapandi hugsun til að troða fyrirvörunum inn í samninginn? Þá eru það ekki þeir fyrirvarar sem ég samþykkti að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins stæði að. (Forseti hringir.) Þetta atriði þarf að komast að niðurstöðu um áður en lengra er haldið.