137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir góða ræðu hjá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Það sem ég mundi gjarnan vilja fá aðeins betri útskýringar á frá hv. þingmanni er hvort það sé rétt skilið hjá mér að þingmaðurinn mundi vilja sjá fyrirvara setta við gildistöku ríkisábyrgðarinnar. Erum við þá að tala um að það verði einhvern veginn tengt við m.a. held ég í breska samningnum, 12. gr., um það hvernig skuli staðið að breytingum á samningnum og að það verði þá algjörlega skýrt að ríkisábyrgðin muni ekki taka gildi fyrr en allir samningsaðilar eru búnir að samþykkja þá fyrirvara sem við erum að setja og þar með verði í raun settur varnagli við fyrirvarana?

Síðan mundi ég gjarnan vilja heyra aðeins frekar frá hv. þingmanni um skoðanir hennar á ræðu, sem ég tel að eigi eftir að verða alræmd í Íslandssögunni, ræðu varaformanns fjárlaganefndar, hv. þingmanns Björns Vals Gíslasonar. Ég ætla að fá að vitna aðeins í ræðu hans, með leyfi forseta:

„… flestum þeim athugasemdum og gagnrýnisröddum sem heyrst hafa hefur verið svarað með málefnalegum rökum og flestar þær gagnrýnisraddir hafa hljóðnað. Allar þær gagnrýnisraddir sem hafa heyrst frá fyrsta degi hafa hægt og bítandi hljóðnað. Og hvers konar samningar ætli það séu sem standa af sér slíka gegnumlýsingu og slíka umræðu? Ætli það séu vondir samningar, virðulegi forseti, eða slæmir samningar eða jafnvel ónýtir sem standa þó enn þann dag í dag í þessari umræðu óhreyfðir, óbreyttir, hvert einasta orð? Nei, það eru ekki vondir samningar, það eru ekki ónýtir samningar sem standa slíkt af sér. Það eru góðir samningar sem standa slíkt af sér.“

Hvað finnst þingmanninum um þessa ræðu og þessi orð frá hv. varaformanni fjárlaganefndar?