137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi ræða er kostuleg og ég get sagt það mjög skýrt að ég gæti ekki verið meira ósammála einum þingmanni en þeim sem þar talar. Það er með ólíkindum að þingmaðurinn, sem er varaformaður fjárlaganefndar, tali með þessum hætti og eins og ég vakti athygli á í ræðu minni er það með ólíkindum að hér komi stjórnarliðar upp hver af öðrum til þess að lýsa því yfir að þingmaðurinn sé ekki að tala fyrir þá. Þingmaðurinn, varaformaður fjárlaganefndar, sem að vísu var fjarstaddur við önnur störf þegar nefndarstarfið fór fram, skilur greinilega ekki um hvað málið snýst. Þess vegna tel ég að þetta sé alveg með ólíkindum.

Varðandi spurninguna um fyrirvara við gildistökuna, og mér líst ágætlega á það orðalag að segja að það sé varnagli við fyrirvarana, eins og hv. þingmaður nefndi það, þá er ég í rauninni að tala um það. Mér líst mjög vel á þá leið sem Indefence-hópurinn kemur með, eins og þeir segja sjálfir, þetta er einföld leið til þess að eyða þessari óvissu. Það er markmiðið með þessu öllu saman að gera ríkisábyrgðina þannig að það sé engin óvissa um það hvað hún felur í sér, að við séum ekki að búa til lagalega óvissu um þetta. Við erum að segja: Við erum með þessi skilyrði við samninginn. Hann mun ekki taka gildi fyrr en þessum skilyrðum er fullnægt, og þannig er það. Við munum ekki láta samninginn gilda eins og var skrifað undir hann af hálfu fjármálaráðherra, hann er ekki í gildi lengur. Hér er gagntilboð, gjörið þið svo vel, við erum búin að kollvarpa þessu. Við erum búin að reka ríkisstjórnina heim með þetta. Það þarf að vera skýrt alls staðar að það sé meiningin.