137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni og þakka henni fyrir andsvarið. Ég held að þegar við lítum til baka eftir nokkur ár, ég tala ekki um áratugi, alveg sama hvort það eru stjórnarsinnar eða stjórnarandstæðingar, þá viljum við ekki segja við börnin okkar og barnabörnin: Við hefðum átt að taka aðeins betri tíma í þetta. Það var bara þannig að við áttuðum okkur ekki á því hvað þessi setning þarna þýddi. Auðvitað vill maður það ekki í neinu máli en þetta mál er af þeirri stærðargráðu að það eitt og sér, að alltaf sé verið með svipuna á lofti, að það þurfi að klára eitthvað fyrir morgundaginn, ljúka fundi á eftir, hvort ekki sé örugglega hægt að fara í atkvæðagreiðslu eftir smástund, það eitt og sér finnst mér algjörlega óábyrgt. Það er hvorki meira né minna, virðulegi forseti, heldur en okkar framtíð sem er undir, framtíð íslensku þjóðarinnar. Ég er mjög ósammála mörgum hv. þingmönnum um ýmsa hluti en ég ætla engum annað en það að vilja vinna af heilindum í þessu máli. Og einhverjir dagar, þó það séu vikur, skipta engu máli. Við breytum ekki því sem var. Núna er það okkar að spila eins vel úr þessu og hægt er. Við eigum að fara í gegnum hverja einustu setningu og kanna hvort þar sé einhver hætta á ferð. Því auðvitað væri það langæskilegast ef við gætum verið öll sameinuð í þessu. Það er markmið í sjálfu sér og mun betra, og nú er ekkert sem kallar á tímapressu í þessu máli sem stundum er, það er náttúrlega markmið í sjálfu sér að þeir sem eiga að fjalla um jafnmikilvæg mál og hér er um að ræða fái endrum og sinnum nætursvefn.