137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka prýðisgóða ræðu og mér er nokkuð létt eftir að hafa hlustað á hana, ekki það að ég hafi haft efasemdir um afstöðu hv. þingmanns í þessu máli en það var mjög ánægjulegt að heyra hversu afdráttarlaus hann er.

Nú hafa borist fregnir af því að títtnefndur Indefence-hópur hafi fengið bráðabirgðaálit frá dr. Michael Waibel, sérfræðingi í alþjóðarétti við alþjóðlega stofnun við Cambridge háskóla, og það sé mat hans að óvíst sé að fyrirliggjandi fyrirvarar muni gilda samkvæmt breskum lögum. Spurningin er því þessi: Er ekki rétt að Alþingi fái a.m.k. einn breskan sérfræðing til þess að leggja mat á fyrirvarana og áhrif þeirra? Ég tek undir allt það sem hv. þingmaður sagði um það hvernig haldið hefur verið á þessu máli í þinginu, það er náttúrlega fyrir neðan allar hellur þegar um slíka hagsmuni er að ræða.

Eigum við ekki að taka um það ákvörðun núna, þingið, að leita okkur utanaðkomandi ráðgjafar frá þeim sem best til þekkja þó svo að í það fari einhverjir dagar? Það mætti þá kannski nota þá daga eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lagt til og kynna málstað Íslands, því að ég hef rekið mig á það hvað eftir annað í samtölum við útlendinga, hvort sem er almenning erlendis eða ráðamenn, að þeir hafa ekki hugmynd um það hvernig þetta mál er vaxið, hvers vegna Íslendingar hafa þessar áhyggjur eða yfir höfuð að Landsbanki Íslands hafi verið einkabanki. Það er því margt sem þarf að útskýra. Reynslan sýnir líka að þegar Íslendingar hafa fyrir því að útskýra málstað sinn, eins og stjórnvöld ættu náttúrlega að vera löngu byrjuð að gera, þá er hlustað og það hefur töluverð áhrif.