137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að hv. efnahags- og skattanefnd hafi veitt glögga umsögn um málið af sinni hálfu til hv. fjárlaganefndar. Ég held að okkur greini aðallega á að þessu leytinu um hvers hlutverk það hafi verið að setja hinn formlega fyrirvara. Utanríkismálanefnd og efnahags- og skattanefnd — en ég sit í báðum nefndum — var einfaldlega falið að veita fjárlaganefnd umsögn um málið sem þær og gerðu. Málið var auðvitað svo stórt og flókið viðureignar og svo mörg sjónarmið uppi í því að við töldum að farsælast væri að það væri á einum stað, á forræði einnar nefndar, samið um og náð niðurstöðu í fyrirvarana, hina efnahagslegu eins og aðra.

Ég skal svara öðrum spurningum hv. þingmanns í síðara andsvari mínu, því miður er tíminn búinn.