137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kjarni máls er sá að það er ekki svo einfalt að þetta sé bara okkur að kenna. Reyndar er það þannig að það sem við erum að undirgangast núna er ekki bara 20 þúsund evra lágmarkið, við erum að undirgangast einhliða ákvarðanir Breta og Hollendinga. Það er mjög slæmt þegar menn eru svo mikið að verja Evrópusambandið að þeir gleyma þessum þætti eða það verður einhvern veginn aukreitis. Ég held að þetta viðhorf, sérstaklega Samfylkingarinnar, hafi gert það að verkum að stjórnarandstaðan hefur þurft að vera að sækja á eins og við værum að semja við Hollendinga og Breta í staðinn fyrir að við settumst niður og skipulegðum vörn okkar í þessu máli.

Það er mjög erfitt þegar talsmenn og ráðherrar ríkisstjórnar þeytast um allan heim til þess að leggja sérstaka áherslu á það að Íslendingar séu glæponar og skúrkar, eins og ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa gert, (ÁI: Hvaða orðbragð er þetta?) en eru ekki að fara yfir málstað okkar Íslendinga. Ég er hér að vitna í t.d. viðtal í Daily Telegraph við viðskiptaráðherra þar sem hann talar um (Forseti hringir.) málið með þessum hætti og ég hef gert að umtalsefni hér í þinginu eins og einhverjir ættu að muna.