137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að renna í gegnum ræðu mína og ég verð að viðurkenna að ég get ekki séð það hér að það stemmi sem hann fullyrðir að ég hafi sagt í þessari ræðu. Ég talaði hins vegar um helmingaskiptin sem mönnum hefur orðið tíðrætt um og ég talaði um hvenær einkavæðing ríkisfyrirtækja hefði hafist og það er í framhaldi af þeirri umræðu sem var hér bæði í gær og í dag. Það sem ég benti á er að ef menn ætla að fara að kenna þessu um þurfum við kannski að tala um hvaðan þessi hugmyndafræði kemur og hvenær byrjað var að einkavæða ríkisfyrirtæki. Þá er ég ekki bara að tala um fjármálastofnanir, ég er að tala um önnur fyrirtæki sem voru í eigu ríkisins.

Ég vil raunar rekja þetta líka til þess að þegar við tókum að okkur að innleiða EES-samninginn og þá hugmyndafræði sem Evrópusambandið byggir á og sem hæstv. ráðherra hefur verið mikill talsmaður fyrir að við göngum í. (Utanrrh.: Og Framsókn.) Nei, a.m.k. ekki þessi framsóknarmaður.

Mér hefur gjörsamlega ofboðið, ég verð að segja það, og einu rökin sem ég get samþykkt fyrir því að koma nálægt Evrópusambandinu, að við gerumst aðilar að því, er til þess að breyta þeirri hugmyndafræði sem Evrópusambandið vinnur eftir. Sú hugmyndafræði hefur einmitt endurspeglast í því hvernig fjármagnið fær að ráða öllu, að það skuli vera talið eðlilegt og gott að opna útibú erlendis, eins og við ræðum hér. Þegar Evrópa stækkaði í austur var það ekki þannig að menn færu þar inn til að fjárfesta og byggja upp framleiðslustarfsemi. Þeir fóru þar inn til að selja lán. Það var gert hérna líka og það er sú hugmyndafræði sem hæstv. utanríkisráðherra sér fyrir sér, að við höldum áfram að vinna að innan Evrópusambandsins. En ég vona svo sannarlega að ég hafi tækifæri til, ef við skyldum einhvern tímann verða svo óheppin að ganga þar inn, (Forseti hringir.) að breyta þeirri hugmyndafræði innan Evrópusambandsins.