137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:41]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Bhr):

Frú forseti. Hér ræðum við ríkisábyrgð á Icesave-innlánunum. Mér finnst í raun og veru fáránlegt svo mikið sem að láta sér detta í hug að þjóðin eigi að bera ábyrgð á skuldum einkaaðila, manna sem þeyttust um heiminn í einkaþotum og átu gull. Um þetta hefur verið fjallað hér í dag og í gær og hef ég litlu við það að bæta.

Það er einkum tvennt sem mig langar að ræða sem minna hefur verið fjallað um.

Hin pólitíska samstaða sem myndaðist í kringum störf fjárlaganefndar og vinnuhópa um fyrirvarana gladdi mig. Við eigum öll að stefna að sama marki og ég vona að sú samstaða sem skapaðist í kringum þetta mál haldist og að unnið verði með þessum hætti hér í framtíðinni. Staða okkar er svo slæm að við munum aldrei geta komið okkur á réttan kjöl nema með samstilltu átaki allra flokka, efnahagslífsins og þjóðarinnar allrar. Nú verðum við að láta pólitískan sandkassaleik lönd og leið og vinna saman að uppbyggingu samfélagsins. Það er mikilvægara en hvort hér sé vinstri stjórn eða hægri stjórn.

Þeir fyrirvarar sem smíðaðir hafa verið finnast mér vera tær snilld — svo lengi sem þeir halda.

Það er vitanlega ófyrirgefanlegt að gengið skuli hafa verið frá þessum ófremdarsamningi í skjóli nætur og hann undirritaður. Sem betur fer tók þingið málið í sínar hendur og sá veruleiki sem nú blasir við okkur er mun skárri en á horfðist í byrjun júní. Við skulum ekki gleyma því að þetta mál átti að keyra í gegn og þingið átti að samþykkja ríkisábyrgðina án þess að sjá samninginn. Það gleðilega gerðist að þingið tók völdin af framkvæmdarvaldinu, neitaði að vera stimpilpúði fyrir óséða samninga og þokaði málinu áfram í rétta átt. Svona finnst mér að þingið eigi alltaf að vinna.

Eitt af hugðarefnum mínum í gegnum árin hefur verið staða þróunarríkja sem hafa verið svo skuldum hlaðin að vonlaust hefur verið fyrir þær þjóðir að greiða höfuðstól skulda sinna. Margar þjóðir greiða einungis vexti og ná aldrei að byggja upp innviði samfélaga sinna, hvað þá að byggja upp velferðarkerfi. Þær þjóðir eru í skuldafangelsi og staða þeirra hefur verið því sem næst vonlaus. Þær eru okkur víti til varnaðar.

Okkar staða ætti þrátt fyrir allt að vera mun betri. Hér eru skólar og heilbrigðiskerfi, vegakerfi og hér býr þjóð sem hingað til hefur verið vinnusöm og er vel menntuð. Auk þess höfum við það forskot á þróunarríkin að hafa síðustu áratugina tilheyrt þeim hópi heimsins sem hefur haft það gott, verið í fararbroddi. Við höfum sem sagt verið í klíkunni og eigum okkur kannski enn vini í þessum stóra heimi. Mér hefur fundist skipta miklu, ekki bara hvort við komumst upp úr þessu feni heldur hvernig og hvort okkar lausn geti hjálpað öðrum þjóðum, þjóðum sem hafa ekki verið í klíkunni.

Ef þeir fyrirvarar sem Alþingi hefur nú smíðað halda — og þá lít ég líka til þeirra viðbótarfyrirvara sem Indefence benti þinginu á í morgun — leyfi ég mér að vona að þeir verði ekki einungis lausn fyrir okkur í þessu vonda máli, heldur líka þær þjóðir sem barist hafa við skuldir sínar, án árangurs, áratugum saman. Ég held að ef það á að liggja fyrir okkur að taka á okkur þessar byrðar er það a.m.k. huggun harmi gegn ef við getum gert heiminn örlítið betri og réttlátari í leiðinni. Ef fyrirvaraleiðin rennur í gegn og nýlenduþjóðirnar Bretar og Hollendingar gera ekki athugasemdir við hana má gera ráð fyrir að þessi leið breiðist út og geti gagnast öðrum þjóðum. Ef svo yrði ætti ég, og ef til vill fleiri, auðveldara með að sætta mig við þá ömurlegu staðreynd að skuldir einkaaðila falli á alla Íslendinga.

Vegna þess fordæmisgildis sem fyrirvararnir kunna að hafa get ég ekki ímyndað mér að viðsemjendur okkar, hvað þá Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, taki þeim fagnandi. Fyrir þá kunna þeir að þýða afskriftir á mun fleiri og stærri lánum. Kannski þýða þeir að þróunarríkin nái að þróast og standa jafnfætis Bretum og Hollendingum.

Við verðum að krefjast þess að fá heilbrigðisvottorð á fyrirvarana. Við verðum að krefjast þess að viðsemjendur okkar, Bretar og Hollendingar, gefi okkur skýr svör um hvað þeir hyggjast gera, samþykki Alþingi bæði fyrirvarana og ríkisábyrgðina. Við eigum heimtingu á að fá það á hreint áður en lengra er haldið.